27. apríl 2005

Nýsköpun í kennslu!

Getur markviss  nýsköpunarkennsla í  grunn- leik- og framhaldsskóla  stuðlað að blómstrandi Eyjabyggð í  framtíðinni? Nýlega sat undirrituð málþing um mótun nýsköpunar og frumkvöðlamenntunar.

Getur markviss  nýsköpunarkennsla í  grunn- leik- og framhaldsskóla  stuðlað að blómstrandi Eyjabyggð í  framtíðinni?

Nýlega sat undirrituð málþing um mótun nýsköpunar og frumkvöðlamenntunar.  Markmið þingsins var að fara yfir stöðu  og stefnu nýsköpunarkennslu og frumkvöðlamenntar á Íslandi í dag og ræða um það hvort við séum á réttri leið hér á landi.

Fyrirlesarar af mismunandi skólastigum og ýmsir fræðimenn sem hafa látið málaflokkinn sig einhverju  varða  sögðu frá reynslu sinni og verkefnum.   Sagt var frá tölvutækni og nýsköpun í fjarnámi þar sem nemendur og kennarar þeirra frá  Íslandi, Finnlandi og Noregi unnu saman  að nýsköpun á sameiginlegu vefsvæði undir stjórn dr. Rósu Gunnarsdóttur.  

Nemendur 7. bekkja í Þjórsárskóla komu ásamt kennara sínum og kynntu nýsköpunarverkefni sem þeir höfðu verið að fást við.  Þeir sögðu frá ferlinu sem gerist frá því  að byrjað er að leita að þörfum eða vandamálum til að leysa.  Dæmi um slíkt voru t.d. að nemendur þreyttust af að sitja með upprétta hönd ef þeir þurftu á aðstoð kennarans að halda.  Þreytandi nöldur móður yfir druslulegu herbergi. Plastpokar á trjám. Rusl úti í náttúrunni. Börn  sem fara of seint að sofa. Fólk sem keyrir of hratt.   Hænur sem skitu á matarbakkann sinn o.s.frv.   Því næst  var leitað að lausnum með  sameiginlegri hugstormun. Nemendur unnu síðan í hópum að ýmiss konar lausnum. Þeir settu á stofn fyrirtæki, gerðu áætlanir, teiknuðu hugmyndirnar upp, gerðu líkön  og framleiddu vöruna sína. Því næst var markaðssetning undirbúin og vörurnar seldar.  Skólinn fékk 15% af söluhagnaði og fyrirtækið sem framleiddi vöruna  fékk afganginn  af hagnaðinum.  Dæmi um vörur sem voru þróaðar og seldar var  viðarhönd  á priki sem sett var í þar til gerðan stand  þegar nemandinn þurfti á aðstoð kennarans að halda og sérstakur kassi sem var þannig hannaður að hænurnar gátu  eingöngu étið úr honum án þess að úrgangur lenti þar.

 

Einnig langar mig að segja frá kynningu samtakanna  JAÍ (Junior Achievement Ísland) á  áhugaverðri vinnu sem fer fram á þeirra vegum.  Samtökin, sem hafa aðsetur hjá Iðntæknistofnun, hafa m.a. það að markmiði  að efla hæfileika ungs fólks  í viðskiptum og til að stofna og reka eigið fyrirtæki.  Þessi samtök framleiða námsefni sem notað er í skólum og er annars vegar hugsað   fyrir  6-7ára nemendur og  hins vegar verkefni fyrir framhaldsskólanemendur. Telja má að um verðug lífsleikniverkefni sé að ræða og hvet ég þá sem þetta lesa til að kynna sér efnið á vefsíðu samtakanna http://www.jai.is.   JAÍ  þjálfar upp ráðgjafa til að kenna á námskeiðunum sem eru standa skólum til boða þeim að  kostnaðarlausu.  

Telja má að  markviss nýsköpunarkennsla og frumkvöðlamennt sé afar áhugaverður möguleiki fyrir skólana í Vestmannaeyjum til að auka fjölbreytni í námi,  koma til móts við sköpunargleði nemenda og auka hæfni þeirra til  frumkvöðlastarfsemi.  Vestmannaeyingar ættu að gefa þessu starfi mikinn gaum því telja má að blómstrandi framtíðarbyggð í Vestmannaeyjum  geti byggst  á  því að við fáum hingað hugmyndaríka frumkvöðla sem kunna og eru tilbúnir að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Erna Jóhannesdóttir,sérkennslufræðingur og námsráðgjafi

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.


Jafnlaunavottun Learncove