Nýr stórskipakantur í Vestmannaeyjum
Lykill að vexti og fjölbreyttara atvinnulífi
Ný skýrsla um innviðauppbyggingu Vestmannaeyjahafnar, unnin af Jóhanni Halldórssyni, sýnir að bygging stórskipakants norðan við Eiðið er lykilatriði til að tryggja áframhaldandi vöxt atvinnulífs og samkeppnishæfni hafnarinnar.
Þar kemur fram að stórskipakantur myndi styðja við ákveðnar framtíðarsamgöngur til og frá Vestmannaeyjum sem núverandi höfn mun ekki geta þjónað. Að óbreyttu munu stærri skip ekki geta nýtt sér hafnaraðstöðu í Vestmannaeyjum þar sem þau munu ekki komast til hafnar sökum stærðar. Samhliða því er hætta á að tíðni siglinga og afhendingaröryggi minnki.
Í skýrslunni kemur einnig fram að skipa- og ferjusiglingar sem nýta sér aðstöðu stórskipakants í Vestmannaeyjum muni fyrirsjáanlega stuðla að nýjum viðskiptatækifærum, sérstaklega í útflutningi sjávarafurða þar sem afhendingaröryggi og flutningstími skiptir höfuðmáli.
Helstu tækifæri með nýjum stórskipakanti:
-
Aukin útflutningur og nýir markaðir: Betri aðstaða gerir útflutnings aðilum kleift að ná til nýrra markaða og stytta flutningstíma. Með styttri siglingaleiðum til Evrópu og Norður-Ameríku verður hægt að flytja vörur á hagkvæmari og umhverfisvænni hátt.
-
Fleiri fraktskip og skemmtiferðaskip: Stórskipakantur gerir Vestmannaeyjahöfn aðlaðandi fyrir fleiri og stærri fraktskip og skemmtiferðaskip. Hægt verður að taka á móti skipum sem eru allt að 300 metra löng, sem opnar nýjar leiðir í flutningum og ferðaþjónustu.
-
Ný atvinnuuppbygging: Stórskipakantur skapar tækifæri fyrir nýja atvinnuuppbyggingu nærri höfninni, t.d. fóðurframleiðslu og þjónustu við úthafseldi.
-
Auknar tekjur og störf: Áætlað er að tekjur Vestmannaeyjabæjar muni aukast um 1.000-1.300 m.kr á ári vegna aukinna umsvifa í höfninni en einnig munu skapast 250-300 bein störf og 400-450 afleidd störf.
Áhrif stórskipakants á atvinnugreinar
-
Sjávarútvegur: Tryggir afhendingaröryggi styttir flutningstíma ferskra afurða, sem er mikilvægt fyrir útflutning.
-
Ferðaþjónusta: Færri afbókanir vegna veðurs og komu stærri skemmtiferðaskipa eykur tekjur.
-
Landeldi: Bætir útflutningsaðstöðu fyrir eldisafurðir.
Núverandi staða
Vestmannaeyjahöfn er lykil fiski- og flutningshöfn með sterkt samkeppnisforskot vegna landfræðilegrar legu sinnar. Hún er síðasta höfnin á leið til Evrópu frá Íslandi, umkringd auðugum fiskimiðum og vaxandi atvinnulífi. Vegna stækkunar skipaflotans er hætta á því að skipafélögin geti ekki á hagkvæman hátt sinnt hinum verðmæta markaði í Vestmannaeyjum eins skilvirknislega og kostur er án tilkomu stórskipakants. Eimskip hefur skrifað undir samning um smíði á tveimur nýjum fraktskipum sem munu ekki komast inn og aðeins er hægt að taka á móti einu af fjórum skipum Smyril line sökum stærðar hafnarinnar.
Kostnaður og fjármögnun
Heildarkostnaður við byggingu stórskipakantsins norðan við Eiðið er áætlaður 8,8 milljarðar króna. Fjármögnun gæti komið frá Hafnabótasjóði og Hafnarsjóði Vestmannaeyja, einkaframkvæmdum eða blönduðum fjármögnunarleiðum.
Innviðauppbygging
Framkvæmda- og hafnarráð og bæjarstjórn hafa fengið kynningu á efni greinargerðarinnar. Bæjarráð hefur fjallað um greinargerðina og leggur til að hún verði nýtt í vinnu starfshóps sem vinnur að framtíðarsýn í fjárfestingarmálum sveitarfélagsins.


