Nýr leikskóli á Sólalóðinni eftir ár
Starf skólastjóra leikskólanna samkvæmt nýju skipuriti verður auglýst laust til umsóknar í ársbyrjun 2006. Á fundi bæjarráðs voru þessi tvö veigamiklu mál afgreidd með eftirfarandi hætti.
Sjá fundargerð bæjarráðs frá 11. júlí í heild sinni hér á vefnum.
- Gerð var grein fyrir viðræðum sem bæjarstjóri, formaður bæjarráðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs áttu við fulltrúa eignarhaldsfélagsins Fasteign hf. (EFF hf.) og teiknistofu Halldórs Guðmundssonar, um stærð og skipulag að nýjum leikskóla á Sólalóðinni. Á fundi hér í Eyjum þann 6. júlí sl. náðist samkomulag um að þessi nýi 100 barna leikskóli verði liðlega 800 fermetrar að stærð. Þá var gengið frá skipulagi innandyra og staðsetningu leikskólans innan byggingareitsins á Sólalóðinni. Einnig voru Stefáni Jónassyni formanni byggingar- og skipulagsráðs og Júlíu Ólafsdóttur leikskólastjóra kynntar skipulagsuppdrættir. Samkvæmt nýrri framkvæmdaáætlun er miðað við að bygging leikskólans verði boðin út í einu lagi nú í haust og lóðarframkvæmdir nokkru síðar. Áætlað er að leikskólinn verði tilbúinn til notkunar fyrir júlí lok 2006. Bæjarráð felur bæjarstjóra og formanni bæjarráðs að ganga frá nauðsynlegum samningum gagnvart EFF hf. svo hægt verði að bjóða verkið út.
Vestmannaeyjabær mun síðar á þessu ári hefja framkvæmdir vegna tengivegar frá Helgafellsbraut að bílastæði norðan leikskólans, eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagi.
Bæjarráð samþykkir að fela umhverfis- og framkvæmdasviði bæjarins að gæta hagsmuna Vestmannaeyjabæjar sem þjónustukaupa við byggingu hins nýja leikskóla og ganga jafnframt frá kostnaðaráætlun vegna tengivegar og bílastæða norðan leikskólans og leggja fyrir bæjarráð.
Með hliðsjón af framansögðu þá samþykkir bæjarráð jafnframt að fella niður umboð til byggingarnefndar um byggingu nýs leikskóla, en nefndin var samþykkt og kosin á fundi bæjarstjórnar þann 4. nóvember 2004.
- Með hliðsjón af 1. máli fundargerðarinnar og með vísan til erindis leikskólastjóra í 2. máli á fundi bæjarráðs 1. júlí sl. samþykkir bæjarráð að sameining leikskólanna og yfirstjórnar þeirra komi að fullu til framkvæmda 1. ágúst 2006, en ráðgert er að skólastjóri leikskólanna hafi aðsetur í hinum nýja leikskóla á Sóla. Starf skólastjóra leikskólanna samkvæmt nýju skipuriti verður auglýst laust til umsóknar í ársbyrjun 2006 og reiknað er með að hann muni þegar eftir ráðningu koma að starfi verkefnisstjórnar um skóla- og æskulýðsmál og hefji síðan starf við undirbúning skólastarfs á leikskólum eigi síðar en 1. maí 2006.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.