Nýjar reglur varðandi fasta fjárstyrki og annarra (starfs)styrkja.
Úthlutað til samningsbundinna aðila innan tómstunda- og æskulýðsfélaga í byrjun hvers árs, en til annarra (ósamningsbundinna) tvisvar á ári, í mars og nóvember ár hvert, sem er nýjung. Sjá hér fyrir neðan vinnureglurnar sem samþykktar voru í bæjarstjórn 2. des. sl. , og einnig endurskoðaður starfssamningur við Bæjarlistamann Vestmannaeyja samþykktur í bæjarstjórn 2. desember sl. Allir samningar verða settir á veffang Vestmannaeyjabæjar þegar þeir eru fullfrágengnir.
Fræðslu- og menningarsvið hefur á undanförnum vikum verið að endurskoða eldri samninga og leggja drög að koma á samningum við alla þá aðila sem hafa fengið fasta árlega fjárstyrki úr bæjarsjóði. Þar er skilgreint hvaða þjónustu og vinnu aðilarnir skulu inna af hendi og jafnframt er þeim gert að skila inn stuttri greinargerð í lok starfsárs. Samningum þessum má segja upp/ krefjast endurskoðunar í ágúst ár hvert, að öðrum kosti framlengjast þeir í eitt ár í senn og taka mið af fjárhagsáætlun hvers tíma.
Til annarra starfsstyrkja verður úthlutað tvisvar á ári, í mars og í nóvember. Umsóknum skal skilað til framkvæmdastjóra fræðslu- og menningarsviðs.
Vinnureglur
varðandi árlega fasta fjárstyrki og vegna annarra (starfs)styrkja sem veittir eru úr bæjarsjóði til ýmissa verkefna
- Allir sem hljóta árlega fasta fjárstyrki skv. fjárhagsáætlun, skulu samningsbundnir og verkefnin skilgreind og greinargerðum um framkvæmd verkefna skilað inn í árslok þar sem við á.
- Standi styrkþegar ekki við gerða samninga falla þeir út af næstu fjárhagsáætlun.
Um aðrar almennar styrkveitingar gilda eftirfarandi reglur:
- Menningar- og tómstundaráð (MTV) úthlutar tvisvar á ári starfsstyrkjum til annarra verkefna, í mars og nóvember ár hvert.**
Samþykkt í MTV 26. nóvember 2004 og í bæjarstjórn 02. desember 2004.
** Umsóknum skal skilað til framkvæmdastjóra fræðslu og menningarsviðs.
Starfssamningur Bæjarlistamanns.
Reglur um STARFSLAUN bæjarlistamanns í Vestmannaeyjum
Vestmannaeyjabær úthlutar starfslaunum til listamanna í Vestmannaeyjum samkvæmt eftirfarandi reglum:
1. gr.
Bæjarstjórn Vestmannaeyja tekur ákvörðun um að úthluta starfslaunum til bæjarlistamanns við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ár hvert.
Menningar- og tómstundaráð Vestmannaeyjabæjar (MTV) velur listamennina, sem starfslaun hljóta hverju sinni.
2. gr.
Ákveði bæjarstjórn að úthluta starfslaunum, gilda eftirfarandi reglur: Starfslaun geta verið föst greiðsla samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar og fjárhagsáætlun, eða sex mánaða laun og skal fjárhæð þeirra þá fylgja launaflokki 79, þrepi 4 í kjarasamningi STAVEY og Vestmannaeyjabæjar. Heimilt er að skipta fjárhæðinni, þó ekki milli fleiri en tveggja listamanna. Starfslaun eru greidd án orlofsgreiðslu eða annarra launatengdra gjalda.
70% starfslauna skulu greidd að lokinni útnefningu listamanns en 30% við lok tímabils þegar listamaður hefur gert grein fyrir starfi sínu.
- Sækja skal um starfslaunin til MTV. Að jafnaði koma þeir einir til greina sem bæjarlistamenn sem búsettir eru í Vestmannaeyjum.
- Listamaður skal í umsókn sinni til MTV gera grein fyrir því sem hann hyggst vinna að. Hann skal einnig gera grein fyrir því hvenær hann ætli að vinna að verkum sínum.
- Auglýst er í marsmánuði eftir umsóknum um starfslaun, með umsóknarfresti til 20. mars. MTV velur úr framkomnum umsóknum og úthlutar á sumardaginn fyrsta, að fenginni staðfestingu bæjarstjórnar. Viðkomandi hlýtur titilinn "Bæjarlistamaður Vestmannaeyja? fyrir úthlutunarárið.
- MTV getur einnig tilnefnt einstaklinga/hópa til starfslauna. Engan má þó tilnefna án samþykkis hans sjálfs.
3. gr.
Að loknu starfstímabili skal bæjarlistamaðurinn gera grein fyrir starfi sínu með greinargerð til MTV, sýningu, flutningi eða upplestri á verki í frumflutningi eða frumbirtingu, allt eftir nánara samkomulagi við MTV hverju sinni
Ekki er gert ráð fyrir sérstakri greiðslu til listamanns fyrir flutning eða sýningu verks skv. framangreindu en listamaður heldur höfundarrétti sínum óskertum.
4. gr.
Reglur þessar tóku gildi við samþykkt þeirra í bæjarstjórn, 2. desember 2004.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Vestmannaeyjabæjar.