Náttúruvísindadagur grunnskólanna
Fyrirhugað er að halda sameiginlegan náttúruvísindadag grunnskólanna í Vestmannaeyjum 21. maí n.k. Aðaláherslan í ár verður á umhverfið. Ætlunin er að vekja bæjarbúa til vitundar um umhverfismál og með því að tengja saman grunnskólana, atvinnulífið og samfélagið er hægt að lyfta grettistaki í umhverfismálum í Vestmannaeyjum.
Náttúruvísindadagurinn er tvískiptur, fyrri hluti dagsins er byggður upp sem ratleikur þar sem nemendur fara í hópum á milli staða/fyrirtækja og leysa ákveðnar þrautir eða verkefni sem tengjast starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Verkefnin og/eða þrautirnar munum við vinna í sameiningu. Seinni hluta dagsins verður unnið á stöðvum þar sem nemendur þjálfast í vísindalegum vinnubrögðum. Um hádegi verður svo efnt til grillveislu í Herjólfsdal þar sem allir bæjarbúar eru velkomnir og við ætlum að draga úr réttum lausnum.
Undirbúiningshópur hefur óskað eftir þátttöku fyrirtækja hér í Eyjum í formi móttöku nemenda í u.þ.b. 20 manna hópum. Hver hópur verður á hverjum stað í u.þ.b. 10-15 mínútur og væri gott ef hvert fyrirtæki tæki á móti 5-6 hópum. Tveir til þrír fullorðnir fylgja hverjum hópi. Áætlað er að hvert fyrirtæki sé með móttöku í 1-1 ½ klukkustund milli klukkan 9.00 og 11.00 föstudaginn 21.maí.
Með því að fá fyrirtæki til þátttöku eru nemendur okkar að kynnast fjölbreytni atvinnulífs hér í Eyjum. Er þetta kjörið tækifæri fyrir fyrirtæki að kynna starfsemi sína og opna dyr sínar fyrir ungum Eyjamönnum. Einnig langar okkur að benda á að þátttekendur verða um 1000 og að nemendum á leikskólunum hefur einnig verið boðin þátttaka.
Það er ánægjulegt að segja frá því að fyrirtæki hafa tekið gríðarlega vel í þetta verkefni og geta áhugasamir aðilar haft samband til þess að fá nánari upplýsingar hjá Elínu Yngvadóttir f.h. undirbúningshóps, s: 481-2644 / 698-6136