Nærhópastarf
Félagsþjónusta Vestmannaeyjabæjar, Landakirkja og Heilbrigðisstofnun standa sameiginlega að nærhópastarfi sem hefst nk. mánudag og varir fram á vor.
Nærhópur er myndaður af fólki með sömu eða samskonar reynslu sem hittist reglulega í nokkur skipti og nýtur samfélags og stuðnings hvert af öðru. Nærhópurinn byggist á jafningjafræðslu, þar sem tjáning annarra á sinni upplifun veitir nýja sýn á erfiða reynslu. Jafnframt því er dýrmætt að tjá sig á þeim vettvangi og í því samfélagi sem veitir skilning og stuðning. Markmið með starfi nærhóps er að veita fólki öruggan vettvang til að ræða erfiða reynslu á uppbyggilegan máta. Handleiðarar leiða hópastarfið.
Nærhópastarfið hófst vorið 2004 og samanstóð hópurinn þá af einstaklingum sem misst höfðu maka sinn. Í þetta sinn verður nærhópastarfið tvískipt, annars vegar ætlað þeim sem eiga þá sameiginlegu reynslu að missa barn og hins vegar þeim sem misst hafa heilsuna. Hóparnir hittast einu sinni í viku í sex vikur og svo í eitt skipti um þremur mánuðum síðar. Fyrri hópurinn starfar á tímabilinu 21. febrúar til 30. maí og sá seinni frá 4. apríl til 6. júní.
Handleiðarar eru sr. Þorvaldur Víðisson, sr. Kristján Björnsson, Guðný Bjarnadóttir ljósmóðir og Thelma Gunnarsdóttir ráðgjafi ásamt hugsanlega fleirum.