8. júlí 2004

Menningarnótt í Reykjavík 21. ágúst n.k.

Vestmannaeyjar gestasveitarfélag höfuðborgarinnar 2004. Eins og mönnum er kunnugt þáði Vestmannaeyjabær höfðinglegt boð borgarstjórans í Reykjavík um að verða gestasveitarfélag á menn

Vestmannaeyjar gestasveitarfélag höfuðborgarinnar 2004.

Eins og mönnum er kunnugt þáði Vestmannaeyjabær höfðinglegt boð borgarstjórans í Reykjavík um að verða gestasveitarfélag á menningarnótt 2004.  Bergur E. Ágústsson bæjarstjóri, Kristín Jóhannsdóttir markaðsfulltrúi og Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri voru skipuð í nefnd til að undirbúa heimsóknina. Nefndin hefur þegar komið saman og skipt með sér verkum.  Ljóst er að einhver kostnaður verður af þessari auglýsingu á bæjarfélaginu og jafnframt að þeir sem koma til með að leggja sitt að mörkum verða að gefa vinnu sína og sjá sjálfum sér og sínum fyrir gistingu á fastalandinu. Siglufjörður var gestasveitarfélagið árið 2003.  

Andrés sem skipaður var formaður þessarar menninganæturnefndar hefur átt fundi með starfsmönnum Höfuðborgarstofu og fleirum sem tengjast málinu og er ljóst að hérna gefst Vestmannaeyingum kærkomið tækifæri á að kynna samfélag sitt og þá starfsemi sem hér fer fram.  Við sem búum hér vitum að það er "gott að búa í Vestmannaeyjum"  og munum kappkosta að útlista það nánar og sem best fyrir landsmönnum á þessari hátíð.

Dagskráin er í mótun en ljóst er að þarna verður kynning á menningu, atvinnuvegum, stofnunum, söfnum, ferðaþjónustu og sérstöðu Vestmannaeyja og einkennum.  Komið hefur til tals að gefa út sérstakt kynningarrit og er það mál allt í nánari skoðun.

Dagskráin hefst formlega með opnunarræðu borgarstjórans í Reykjavík Þórólfs Árnasonar kl 14:00 og síðan ávarpi bæjarstjórans okkar Bergs E. Ágústssonar.  Síðan tekur við formleg dagskrá, sem stendur út daginn og fram á miðnótt eða þangað til flugeldasýningin hefst. Matarhléi verður á milli 18:00 - 20:00.

Ýmsar hugmyndir hafa litið dagsins ljós, og á næstu dögum verður stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum send bréf og tölvupóstar, þar sem viðkomandi verða beðnir um álit og forgangsröðun á þeim atriðum og hugmyndum sem viðkomandi vildu helst leggja áherslu á í kynningu og umfjöllum á Eyjunum.

Ekki er ólíklegt að fleiri svæði en salurinn á neðstu hæðinni verði notaður, má nefna svalir hússins, brúna, hólmann og tjarnirnar.  Í athugun er t.a.m. hvort hugsanlega verði hægt að nota gamla hafsögubátinn "Létti" á Tjörninni til að auglýsa sögu okkar í vélbátaútgerð.

Nánar verður greint frá gangi mála er nær dregur.

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar


Jafnlaunavottun Learncove