ManWoMan dansverkið kemur hingað til Vestmannaeyja í samvinnu við Listaskólann og Leikfélagið
Eitt opnunarverkanna frá Nútímadanshátíð í Reykjavík 2004 verður sýnt í Bæjarleikhúsinu 8. september nk. Aðeins þessi eina sýning. Þjóðleikhúsið væntanlegt með Græna landið.
Framkvæmda- og menningarsvið hefur náð samningum við aðstendur ManWoMan sýningarinnar og hlutaðeigendur hér heima um að fá þetta dansverk hingað. Markmiðið er að við getum á sem flestum sviðum setið við sama borð og höfuðborgin a.m.k. fengið til okkar sýnishorn af því besta sem stendur til boða á höfuðborgarsvæðinu. Í bígerð er og Þjóðleikhússins með sýninguna Græna landið eftir Ólaf Hauk Símonarson. Þar eru stórleikararnir Gunnar Eyjólfsson og Kristbjörg Kjeld í aðalhlutverkum og nýliðinn Björn Thors, sem hlaut Grímuna fyrir leik sinn í þessu verki sem besti aukaleikarinn.
Nokkur orð um verkið ManWoMan.
Það þarf allar gerðir í lifandi heimi. Sumir vita ekki, eða er bara alveg sama, hvort þeir eru karlkyns eða kvenkyns. Í ManWoMan er dansað af fögnuði yfir dásamlegri fjölbreytni mannlegrar tilveru. Litríkir búningarnir eru innblásnir af blómstrandi orkídeum og strútum í stuði. ManWoMan hrærir öllu saman í frískandi blöndu, sem borin er fram í takt við frumsamda popptónlist. Það er gott að vera öðruvísi.
Aðstandendur verksins eru:
Dans og kóreógrafía: Ólöf Ingólfsdóttir og Ismo-Pekka Heikinheimo
Tónlist: Hallur Ingólfsson
Lýsing: Jukka Huitila
Búningar: Marja Uusitalo
Leikgervi:Ásta Hafþórsdóttir
Sýnt 8 september í Bæjarleikhúsinu kl. 20:00. Nánar auglýst og miðapantanir í síma L.V. 481-1940
Nokkur orð um Nútímadanshátíðina, sem nú er haldin í þriðja sinn.
Nútímadanshátíð í Reykjavík var stofnuð árið 2002 til að skapa nýjan vettvang fyrir nútímadans á Íslandi. Hátíðin er orðin árlegur viðburður í íslensku menningarlífi og býður að þessu sinni upp á sjö ný dansverk eftir marga af fremstu danshöfundum landsins. Ástrós Gunnarsdóttir, Jóhann Björgvinsson, Nadia Banine, Peter Anderson, Sveinbjörg Þórhallsdóttir og Margrét Sara Guðjónsdóttir, Cameron Corbett, Ólöf Ingólfsdóttir og Ismo-Pekka Heikinheimo, eiga verk á hátíðinni. Öll verkin eru frumsýnd á hátíðinni.
Sérstakur gestur Nútímadanshátíðar 2004 er Birgitta Egerbladh frá Svíþjóð, en hún og Teater Pero koma frá Svíþjóð með stórskemmtilega dansleikhússýningu sem nefnist Things That Happen At Home og varpar alveg nýju ljósi á hversdagslega atburði heimilislífsins, em kannski eru ekki svo hversdagslegir ef vel er að gáð.
Nútímadanshátíð í Reykjavík er í samstarfi við Borgarleikhúsið og styrkt af Reykjavíkurborg og Menntamálaráðuneytinu.
Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs.