Málþing um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans og ný grunnskólalög.
Erna Jóhannesdóttir tók saman pistil um helstu þætti sem ræddir voru á málþinginu. Bæjarbúar eru hvattir til að lesa pistilinn og spá í spurningarnar sem settar voru fram. Ef menn vilja tjá sig um málefnin er hægt að senda punkta og athugasemdir til undirritaðrar sem fyrst á netfangið erna@vestmannaeyjar.is. Þeim mun síðan komið áfram til réttra aðila.
Menntamálaráðuneytið stóð nýlega fyrir málþingi á Hótel Nordica um framtíðarsýn í málefnum grunnskólans og ný grunnskólalög. Um 250 manns komu á málþingið sem var vel skipulagt. Nýjasta tækni var notuð til hins ítrasta þannig að þátttakendur á málþinginu gátu komið skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri með msn skilaboðum sem birtust jafnóðum á skjám í salnum. Undirrituð tók þátt í málþinginu og hvetur bæði foreldra og kennara að lesa þennan pistil, spá í spurningarnar sem settar hafa verið fram og senda mér athugasemdir sínar.
Fjögur meginþemu voru rædd og var byrjað á að fjalla um flæðandi skil skólastiga og hvort heldur ætti að ríkja fræðsluskylda eða skólaskylda. Spurningar sem voru ræddar voru meðal annars um hvernig skilin milli leik-, grunn-, og framhaldsskóla ættu að vera og hvort ekki nægði að vera með eitt stig fyrir börn frá leikskóla til 18 ára aldurs. Jafnframt kom fram að lausleg athugun hefur sýnt að á árinu 2005 voru 439 nemendur í framhaldsskólum landsins að endurtaka efni úr grunnskóla og spurt var hvort þessir nemendur ættu að vera lengur í grunnskóla. Loks var spurt ?Hví skyldi nemandi úr 9. bekk ekki mega fara í framhaldsskóla?", ?Hvers vegna skyldu allir þurfa að ljúka stúdentsprófi til að fara í háskóla?" og ?Af hverju erum við svona treg til að meta raunfærni fólks?"
Eftir þessar umræður kom að málefninu ?Einstaklingsmiðað nám - Skóli án aðgreiningar." Bent var á að áherslan á einstaklingsmiðað nám hefur verið augljós í íslenskum lögum um árabil og í grunnskólalögum a.m.k. síðan 1974 þó að það sé orðað á þann hátt að skólinn skuli koma til móts við þarfir hvers og eins . Áherslan hafi oft verið miðuð við meðalnemandann og árangursleysi í námi skrifað á nemandann, skort á áhuga, ástundun eða hæfileikum hans. Rætt var að hugtakið um einstaklingsmiðað nám hafi hins vegar hleypt nýju lífi í umræðuna um nám við hæfi hvers og eins. Hugtakið vísi til skipulags skólastarfs sem tekur mið af þörfum hvers einstaklings fremur en hópa. Nægir að hafa almenna leiðbeiningu til skóla um að þeim beri að skipuleggja skólastarf sem kemur til móts við þarfir allra nemenda eða þurfa fyrirmæli í lögum að vera nákvæmari? Spurt var hvort sérskólar væru tímaskekkja eða nauðsynlegur valkostur og hvernig réttur barna sem þurfa sérhæft nám eða aðstoð (s.s. fatlaðra, innflytjenda, barna með geðræna erfiðleika) væri best tryggður.
Þriðja efnið sem tekið var til umræðu var um samræmd próf, kosti og galla ásamt umfjöllun um gæðamat í skólastarfi. IX. kafli laga um grunnskóla var tekinn til umræðu og ýmsar spurningar settar fram. Bent var á að megintilgangur námsmats ætti að vera örvun nemenda og námshjálp (44. gr) og spurt var hversu hvetjandi námsmatið, eins og því er nú háttað, væri? Spurt var hvort samræmd próf bæti skólastarf og hvar væri að finna könnunarprófin og stöðluðu kunnáttuprófin sem ætlast er til að skólum standi til boða skv. 46. gr. laganna.
Loks var fjallað um spurninguna ?Hver á að ráða?"
a) Hver á að setja eða útfæra markmið grunnskólans og þar með námsskrána? Þarf viðmiðunarstundaskrá? Hvers vegna? Hver á að setja hana. Hve langt á að ganga að veita einstöku skólum svigrúm til að móta sína eigin námsskrá? Hverjir eiga að vera fulltrúar einstakra skóla?
b) Hver ættu samskipti skóla og heimila barna að vera? Hver á að ákveða í hverju samskipti þessara aðila eiga að felast? Á að krefjast þess að foreldrar starfi með skólunum að fræðslu og uppeldi barna? Á að fela heimilum ákvörðunarvald um inntak, starfshætti og samstarf?
c) Hver á að skipta fjármagni milli skóla og jafnvel einstakra nemenda. Á hvaða forsendum skal það gert? Hér eru m.a. höfð í huga framlög til þeirra barna sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda. Á það að vera á valdi einstakra skóla, sveitarfélaga eða ríkisvaldsins að setja reglur um þetta og túlka þær?
Heildarendurskoðun grunnskólalaga stendur nú yfir. Nefnd, skipuð af menntamálaráðherra hefur haft víðtækt samstarf við hina ýmsu hagsmunaaðila. Nýlega kom út áfangaskýrsla um þessa endurskoðun: http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/afangask_grsklog_2006.pdf
Enn er kallað eftir athugasemdum og eru lesendur þessa pistils hvattir til að láta skoðanir sínar í ljós varðandi málefnið.
Erna Jóhannesdóttir
fjölskyldu- og fræðslusviði Vestmannaeyja