9. júní 2004

Maður og öngull 2004

Sýning á lóð Safnahússins, anddyri, stigagöngum og í sal Listasafnsins á efri hæð í tilefni aldarafmælis Binna í Gröf og að 100 ár eru liðin frá upphafi vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum. Sýningin Maður

Sýning á lóð Safnahússins, anddyri, stigagöngum og í sal Listasafnsins á efri hæð í tilefni aldarafmælis Binna í Gröf og að 100 ár eru liðin frá upphafi vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum.

Sýningin Maður og öngull 2004 var opnuð í Safnahúsinu laugardaginn 5. júní.  Hún er sett upp í tilefni af aldarminningu Binna í Gröf og þess að 100 ár eru frá upphafi vélbátaútgerðar í Vestmannaeyjum.

Mjög mikil aðsókn var að sýningunni yfir sjómannadagshelgina en ákveðið hefur verið að hún muni standa fram yfir goslokahátíð.

 Á lóð Safnahússins hefur verið komið fyrir munum sem tengjast sjósókn, útgerð og fiskverkun.  M.a. hafa verið settar upp trönur með fiskhausum og lítið stakkstæði útbúið.

Í anddyri Safnahúss er yfirgripsmikil sýning á köfunarbúnaði sem að mestu er í eigu Sigurðar Óskarssonar kafara.  Þarna er rakin saga köfunar frá upphafi og fram til okkar daga.

Í anddyrinu er einnig safn af gömlum ljósmyndum úr safni Friðriks Jessonar. Umsjón með myndastækkun var í höndum Inga Tómasar. Þar af er ein verulega stækkuð mynd frá sjómannadegi 1955 þar sem má sjá um 120 andlit.  Tekist hefur að bera kennsl á um 100 af þeim andlitum en skýringar vantar við 20 þeirra.

Þá var gerður bæklingur vegna sýningarinnar með uppskriftum að níu fiskréttum, eftir Grím Þór Gíslason og er sá bæklingur ókeypis fyrir sýningargesti.

Á efri hæð Safnahússins er sýning á bátalíkönum frá upphafi aldarinnar fram til okkar daga.

Á efri hæðinni, í sal Listasafnsins, er myndasýning tileinkuð Binna í Gröf, unnin af þeim Sigurgeir Jónssyni og Sæþóri Vídó.  Þarna eru 48 myndir, ýmist gamlar myndir frá Vestmannaeyjum eða myndir sem tengjast beint Binna í Gröf, ásamt skýringartextum.  Með sýningunni er leikin tónlist Ása í Bæ ásamt því að spilað er viðtal sem Björn Th. Björnsson átti við Binna árið 1959.

Umsjón með uppsetningu sýningarinnar höfðu þau Hlíf Gylfadóttir, safnvörður og Sigurgeir Jónsson, menningarfulltrúi en Guðjón Ólafsson frá Gíslholti var ráðinn sérstaklega sem listrænn og tæknilegur ráðunautur og stjórnaði uppsetningunni.

Sérstakri nefnd var komið á laggirnar, 100 ára nefndin sem lagði fram tillögur um efni og atriði og annaðist undirbúning.  Formaður nefndarinnar var Hlíf Gylfadóttir og með henni voru Kristján Egilsson, menningarfulltrúinn, Sigurður Vilhelmsson, Nanna Þ. Áskelsdóttir og Andrés Sigurvinsson kom einnig að þessu.  Sömuleiðis sat Guðjón Ólafsson fundi nefndarinnar.  

Nefndin vill koma á framfæri kæru þakklæti til allra sem lögðu henni lið og þakkir til sýningargesta fyrir ábendingar og upplýsingar sem hafa að gagni komið.

Fræðslu- og menningarsvið

 


Jafnlaunavottun Learncove