Lundamamma og aðrir meðlimir munu blasa við hátíðargestum frá Hólmanum
Listamaðurinn Sigmund ( Walt Disney okkar Íslendinga ) teiknaði mynd sérstaklega fyrir heimsókn okkar á Menninganótt. Verður stækkuð í 4 m og komið fyrir í Hólmanum. Byrjum hugsanlega með skrúðgöngu frá Hljómskálagarði.
Undirbúningur vegna fyrirhugaðrar farar okkar Eyjamanna á Menningarnótt er nú á lokastigi og margt hefur verið endanlega ákveðið. Byggt verður eldfjall í eystri sal Ráðhússins í Reykjavík, við munum sýna hluti frá gostímanum, 6 sjónvarsskjáir verða víðsvegar um salinn og þar munu gestir geta skoðað náttúru, mannlíf og annað sem prýðir eyjarnar okkar, og Páll Marvin frá Rannsóknarsetrinu er að vinna í að koma með lifandi lundapysjur sem yrðu þarna á tjörn. Það mál er enn allt í vinnslu
Á millidekki salarins verður í gangi mynd frá gostímanum, svo og mun Grímur Gíslason bjóða upp á reyktan lunda og fleira. Í vestari sal verður stórt svið þar sem fjölmennur hópur listamanna héðan frá Eyjum mun troða upp og skemmta gestum. Árni Johnsen, Lalli, Eygló, Sigurrós, Dans á Rósum hafa nú staðfest þátttöku. Þegar hefur verið greint frá Hippabandinu, Obbó-síí - hópnum, Hofmanns, Leikfélaginu, Tyrkjaráninu, Gísli Helgason, Hafsteini Guðfinns og félaga, Lúðrasveitinni og félagar úr götuleikhúsinu Ottó verða líklega á svæðinu og etv. fleiri.
Í athugun er hvort Herjólfur muni sigla til Reykjavíkur og vera við Ægisgarði hátíðisdaginn. Beðið er eftir endanlegu svari frá Samskipsmönnum. Ef af verður mun verða hönnuð sérstök dagskrá um borð í Herjólfi, s.s. tónleikar, myndlistar- handverks- og tískusýningar,kaffihús og þar yrðu ýmsar uppákomur. Fyrirtæki og einstaklingar hafa möguleika á að kynna sig og auglýsa starfsemi sína og hugsanlega má koma upp sölubásum, hafa opinn markað. Veitingasala og almenn stemming allan daginn. Ekki er ólíklegt að Samskipsmenn bjóði upp á siglingu um sundin blá. Vonandi skýrist þetta sem fyrst og gaman ef þetta verður að veruleika. Vitað að ferð á laugardegi myndi falla niður og jafnvel fyrri ferð á sunnudegi, en það er að heyra á fólki sem þetta hefur verið rætt við að menn myndu taka því. Flestum er ljóst hvaða þýðingu þessi kynning á Eyjum er mikilvæg, búist er við að milli 70 - 90 þúsund manns verði á ferli þennan dag í miðborg Reykjavíkur.
Vitað er að í bígerð er einhverjir listamenn héðan ætla að halda sýningar á list sinni í Reykjavík þennan dag, og hefur Skólavörðustígurinn heyrst nefndur á nafn. Undirbúningsnefndin hefði áhuga að fá nánari upplýsingar og mun geta þessara viðburða í dagskrá.
Við viljum hvetja alla sem eru búsettir á fastalandinu að fjölmenna á dagskrána okkar og ÁTVR verður send dagskráin til dreifingar til meðlima þegar hún verður endanlega komin saman, en hún verður birt í næstu viku. Við viljum hveta alla sem hafa áhuga á að láta bæklinga, kort eða annað prentað efni um starfsemi sína liggja frammi í Ráðhúsinu á menningarnótt að hafa samband við Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóra eða Kristínu Jóhannsdóttur markaðsfulltrúa.
Fræðslu og menningarsvið.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri