12. júlí 2004

Lokahnykkurinn í vinnuferli Stille øy verkefnisins.

Almenningi sýndur afraksturinn í Vélasal Listaskólans annað kvöld og hefst sýningin kl 20:30.  Aðgangseyrir kr. 500. Eins og fram hefur komið er staddur hérna í Vestmannaeyjum hóp

Almenningi sýndur afraksturinn í Vélasal Listaskólans annað kvöld og hefst sýningin kl 20:30.  Aðgangseyrir kr. 500.

Eins og fram hefur komið er staddur hérna í Vestmannaeyjum hópur ungmenna frá Noregi og Færeyjum til að halda áfram vinnu í samnorrænu verkefni sem gengur undir nafninu  Stille øy / Kyrrlát eyja / Kvirra Oggin.

Megintilgangur þessa verkefnis er að ungmenni frá öðrum norrænum eyjasamfélögum fái tækifæri til að vinna saman, skiptast á skoðunum og reynslu, læri af hvort öðru og taka tillit til ólíkra sjónarmiða og hátta og uppfræði hvort annað almennt um menningu og siði hvers lands fyrir sig.

Megin þemað hefur verið að skoða samspil sjávar og lands, þagnar og einangrunar og skoða áhrif þessara þátta á einstaklinginn sem og hópinn.  Hópurinn dvaldist án allra tæknivæðingar s.s. gsm síma, myndavéla, útvarps, klukkna og þh. í þrjá daga á eyðieyjunni Tinden í Noregi fyrir tveimur árum og nú var farið í hliðstæðan leiðangur út í Bjarnarey þar sem þessi hópur dvaldist á þriðja sólarhring.  Þeim var uppálagt að nota skynfæri sín og upplifun, skrá áhrifin í litlar bækur sem þeim var afhent við komuna út í Bjarnarey.  Þetta var gert til að safna efni í sarpinn út frá framansögðu sem nú er notað við að setja saman lokaniðurstöðu sem kristallast í sýningu sem við fáum að sjá annað kvöld.  

Hópnum hafði og verið uppálagt að lesa sérstakar sögur sem fjalla um atburði tengdum sjávarsíðunni víðsvegar af Norðurlöndunum.  

Af fyrri reynslu þeirra sem sýndu í Noregi má búast við spennandi og óvenjulegri sýningu þar sem höfuðáherslan verðu lögð á líkamstjáningu og hljóð.  Til gamans má geta þess að veran í Bjarnarey fæddi af sér þó nokkur ljóð og lög sem væntanlega koma inn í þessa sýningu.  

Að sögn framkvæmdastjóra verkefnisins hérna heima Ástu Steinunnar Ástþórsdóttur hefur þetta verið strembin og krefjandi vinna en um leið einkar gefandi og lærdómsrík og mjög skemmtileg.  Hún fullyrðir að félagar og allir þátttakendur hafi lært óhemju margt og þá ekki síst að einstaklingarnir geta oft miklu meira en þeir hafa trú á að þeir geti í fyrstu.  Hún er sannfærð um að þetta eigi eftir að styrkja innvið Leikfélagsins hérna og félagsstarfið í Framhaldsskólanum og er strax farin að hlakka til að halda til Færeyja, en þar verður næst hist og unnið áfram.  

Hún vill koma á framfæri kæru þakklæti til bæjaryfirvalda og allra þeirra sem hafa styrkt og aðstoðað við þessa heimsókn.  Sérstaklega þakkar hún stjórnendum verkefnisins þeim Katrine Strøm og Ólafi Guðmundssyni, sem tók við af Andrési Sigurvinssyni sem fór fyrir hópnum héðan fyrir tveim árum en hafði ekki tíma til að vera með í þetta sinn.  Hvetur Vestmannaeyinga til að mæta vel á sýninguna.  Sérstök sýningarskrá er í prentum og plagat.

Til gamans má geta að hópurinn frá Noregi heldur úti vefsíðu þar sem menn geta kynnt sér daglega þróun verkefnisins.  Slóðin er www.silentisland.com

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar


Jafnlaunavottun Learncove