1. mars 2005

Listahátíð 2005

Á næstu dögum verður skrifað undir samning við Listahátíð 2005 um þátttöku Vestmannaeyjabæjar í hátíðinni.  Micole Assael, ítölsk nútímamyndlistarkona verður með verk hérna, sem verður formleg opnun 15. maí nk.  Da

Á næstu dögum verður skrifað undir samning við Listahátíð 2005 um þátttöku Vestmannaeyjabæjar í hátíðinni.  Micole Assael, ítölsk nútímamyndlistarkona verður með verk hérna, sem verður formleg opnun 15. maí nk. 

Dagskrá Listahátíðar 2005 var kynnt á blaðamannafundi sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur föstudaginn 25. febrúar sem fullyrða má að verði sú umfangsmesta sem haldin hefur verið. Hún er jafnframt fyrsta hátíðin sem haldin er á oddatöluári, en í fyrra var ákveðið að hér eftir yrði Listahátíð á hverju ári.

Á fundinum var farið yfir dagskráratriði Listahátíðar í Reykjavík 2005 sem er óvenjuleg að því leyti, að stærstur hluti hennar er yfirgripsmikið myndlistarverkefni, þar sem samtímamyndlist er kynnt á yfir 20 sýningarstöðum, í Reykjavík, nágrannasveitarfélögum og öllum landshlutum. Opnanir á myndlistarsýningum standa yfir samfleytt í tvo daga frá morgni til kvölds (14. og 15. maí). Einnig verður efnt til hringflugs um landið af þessu tilefni, svo fólki gefist tækifæri til að vera viðstatt sýningar opnanir þar. Aragrúi erlendra blaðamanna og listunnenda hafa þegar boðað komu sína á hátíðina.

Listahátíð í Reykjavík verður sett 14.maí og stendur til 5.júní.

Á Listahátíð verður annars vegar viðamikil sýning á verkum Dieter Roth, en sýningarstjóri hennar er Björn Roth, sonur listamannsins. Sýningin fer fram á tveimur stærstu listasöfnum landsins; Listasafni Reykjavíkur og Listasafni Íslands og einnig í Galleríi 100° í samvinnu við Nýlistasafnið.

Hinn hluti myndlistarþáttar Listahátíðar hefur yfirskriftina Tími/rými/tilvera og sýningarstjóri þess hluta er Jessica Morgan, sýningarstjóri samtímalistar við Tate Modern safnið í London.

Ný verk hafa verið pöntuð sérstaklega fyrir þessa sýningu, þar sem viðfangsefni Dieter Roth og áhrifin af verkum hans eru könnuð. Á sýningunni koma saman 33 myndlistarmenn frá Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Mexíkó, Austur-Evrópulöndum eins og Póllandi og Albaníu og öðrum Evrópulöndum. Nærri helmingur listamannanna eru Íslendingar.

Þá verða einnig glæsilegir viðburðir á sviði annarra listgreina í boði; tónleikar, sirkus í tjaldi og danssýningar frá þremur löndum.

Samstarfsverkefni á sviði tónlistar, svo sem verkefnið Bergmál, þar sem japanskir og íslenskir listamenn leiða saman krafta sína, tónleikar Barða Jóhannssonar og frönsku söngkonunnar Keren Ann með íslenskum kór og koma bandaríska kvartettsins Pacifica eru meðal slíkra verkefna.

Þá verður umfangsmikið samstarf við skóla og landsbyggðina líkt og á síðustu hátíð. Samstarfsverkefnið Trans Dans Europe kynnir þrjá erlenda dansflokka á hátíðinni og einnig verða tveir afar spennandi tónleikar á sviði heimstónlistar, barkasöngvararnir í Huun Huur Tu frá Tuva, við landamæri Mongólíu, syngja í Nasa opnunarhelgina og fado söngkonan Mariza, sem sögð er mest spennandi rödd heimstónlistarinnar í dag verður á Broadway.

Einnig verða Beethoven sónöturnar fyrir píanó og fiðlu fluttar í heild sinni á Íslandi í fyrsta sinn í aldarfjórðung.

Ekki má gleyma franska sirkusnum, sem mun leika listir sínar í sirkustjaldi á hafnarbakkanum lokahelgi Listahátíðar, þar sem jafnframt er haldið upp á Hátíð hafsins.

Mezzosópransöngkonan Anne Sofie von Otter, sem er í hópi dáðustu sönkvenna samtímans verður með tónleika í Háskólabíói þann 4. júní. Söngkonan er sögð jafnvíg á óperu-, ljóða- og barokkmúsík og er þekkt fyrir buxnahlutverk sín. Meðleikari hennar á tónleikunum er Bengt Forsberg, sem sjálfur er einn besti ljóðapíanisti samtímans og í miklum metum.

Miðasala Listahátíðar hófst föstudaginn 25. febrúar kl 16.00. Símatími miðasölunnar er alla virka daga 10-12 í síma 552 8588.  Miðasalan í Bankastræti 2 opnar 1. apríl. Passar á allar myndlistarsýningarnar verða einnig í boði í vor.

Á fundinum var jafnframt skrifað undir samstarfssamning við KB-banka um myndlistarþátt Listahátíðar í Reykjavík 2005 og sýnd kynningarmynd um hátíðina 2005.


Jafnlaunavottun Learncove