Læsi á 21. öldinni
Hvar stöndum við? Hvert stefnum við? Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi skrifar.
Nýlega var haldin á Akureyri ráðstefna um læsi á 21. öldinni. Þar komu saman helstu fræðimenn um læsi og lestrarfærni og fjölluðu um þessar spurningar frá ólíkum sjónarhornum. Dr. Þorbjörn Broddason ræddi um lestrarvenjur íslenskra ungmenna. Hann sagði m.a. frá rannsóknum þar sem kom fram að 89% ungmenna í Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjum lásu a.m.k. eitt dagblað daglega eða næstum því daglega árið 1968 en árið 2003 var hlutfallið 40%.
Dr Þorbjörn ræddi einnig um breytingar í lífi fjölskyldna á Íslandi. Hann bar saman líf þeirra og sagði m.a.: ?Á síðari hluta tuttugustu aldar lokaði fjölskyldan útidyrum heimilisins að baki sér og settist saman inn í stofu. Nágrennið hvarf en gluggi sjónvarpsins opnaði okkur sýn á víðáttu heimsins. Í upphafi tuttugustu og fyrstu aldar hafa einstakir heimilismenn lokað að sér hver í sínu herbergi, hver við sinn glugga út í heiminn. Fjölskyldan er farin sömu leið og nágrannarnir". Þessar breytingar hafa átt sér stað á mjög skömmum tíma og erfitt er að sjá fyrir sér hvað framtíðin ber í skauti sér.
Rósa Eggertsdóttir sérfræðingur skólaþróunarsviðs á Akureyri ræddi um framtíðarskólann og áherslurnar á 21. öldinni. Hún ræddi um þau teikn sem eru á lofti þar sem fram kemur hversu erfitt getur verið að fá nemendur til að lesa texta. Í PISA rannsókn sem gerð var árið 2000 má sjá að lesskilningur íslenskra nemenda virðist fremur bágborinn. Þar má sjá að helmingi fleiri Finnar en Íslendingar ná besta árangri í lestri og lesskilningi. Þetta gerist þrátt fyrir að á stundaskrám íslenskra grunnskóla á Íslandi er boðið upp á mikinn tíma til lestrar. Yfirleitt búa skólar yfir góðum bókakosti, ýmiss konar lestrarátök og upplestrarþjálfun er viðhöfð víða á landinu o.fl. Rósa telur að tíminn sem gefst í 1. bekk sé vannýttur og að kennslan virðist ekki taka mið af lestrarþekkingu nemenda við skólabyrjun. Jafnframt telur hún að markvissri lestrarkennslu sé hætt allt of snemma, faggreinakennarar líti ekki á sig sem lestrar- og ritunarkennara og að viðmið skóla fyrir árangri í lestri sé víða óviðeigandi. Rósa ræddi um framtíðarskólann sem mun gera aðrar kröfur til nemenda en gert er í dag. Skólinn mun kalla meira á vísindaleg vinnubrögð þar sem nemendur þurfa að greina og flokka gögn og gefa flokkunum heiti. Nemendur þurfi að skoða samkenni og mismun og draga ályktanir af því sem þeir eru að vinna með og loks gera grein fyrir niðurstöðum á fjölbreyttan hátt, m.a. í mæltu máli og rituðu.
Rósa hvatti til þess að skólinn leggi áherslu á lestrarkennslu upp allan grunnskólann. Hún telur að allir kennarar þurfi að hafa menntun á sviði lestrar og ritunar. Sérstakir lestrarkennarar kenni grunnfærnina og að allir kennarar kenni lestur og ritun og axli ábyrgð sem slíkir.
Margt fleira áhugavert var rætt og kynnt á ráðstefnunni og var erfitt að ná að fylgjast með öllu sem var í boði. Þó vil ég nefna frábæran fyrirlestur Dr. Maureen Lewis sem ræddi um lestur og lesskilning og sagði frá ýmsum áhugaverðum leiðum til að vinna með þessa þætti. Hún nefndi m.a. vinnu með hugkort, ýmsa leiki, gröf og myndir sem hentugar leiðir til að styðja við lestrarnám og lesskilning.
Helstu skilaboð ráðstefnunnar að mínu mati voru að lestrarkennsla skuli vara allt grunnskólastigið. Þó að nemendur séu búnir að tileinka sér tæknina að lesa er það eingöngu fyrsti þátturinn í lestrarnáminu. Áherslan þarf því að vera að allir kennarar í öllum námsgreinum og upp allan skólastigann líti á sig sem lestrarkennara.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.