30. júní 2021

Kristín Jóhannsdóttir safnstjóri Eldheima er með metnaðarfulla og fjölbreytta dagskrá á safninu um goslokahelgina

Í viðtali segir hún frá sinni aðkomu að hátíðinni og gosinu 1973.

Kristín var ný orðin 13 ára og man því nokkuð vel eftir augnablikinu þegar byrjaði að gjósa.

Ég áttaði mig alls ekki strax á því að það væri byrjað að gjósa. Árið 1973 var kalt stríð á milli heimsveldanna í algleymingi. Foreldrar mínir lásu daglega Moggann og töluðu um rússneska spútníka í grennd við landið.“ Kristín og fjölskylda bjuggu í vesturbænum og horfðu þaðan á austubæinn loga. Fyrsta hugsun hennar var sú að það værið komið stríð og Rússarnir komnir. „Pabbi gekk um gólf og kallaði guð minn góður í smá tíma, stundi svo loksins upp að sennilega væri farið að gjósa. Þá létti mér stórlega, því á Íslandi, eins og ég segi oft við gestina mína, erum við vön náttúruhamförum. Mínar fyrstu minningar tengjast t.d. Surtsey, sem var meira svona eitthvað til að horfa á í sunnudagsbíltúrinum og engin hætta í kringum það. Óttinn hvarf því þegar ég vissi að það væri farið að gjósa og næsta spurning til pabba var hvort hann héldi að við þyrftum að mæta í skólann.“ Eftir það var bara það klassíska, pabbi Kristínar fór með hana og bræður hennar í Danska – Pétur. Sjálfur varð hann eftir og var meira og minna allt gosið í Eyjum.

„Af því við vorum í vesturbænum og þar með í öruggri fjarlægð frá gosinu þá vorum við öll frekar róleg og það var enginn sem hélt að það þyrfti að fara pakka saman og yfirgefa heimilið í síðasta sinn“

Hvernig var dvölin á fastalandinu? Hvenær fluttu þið til baka?

„Dvölin á fastalandinu var voða fín, það var meira ákvörðun pabba en mömmu að fara aftur til Eyja. Mér og bræðrum mínum gekk öllum vel í skólanum og áttum vini, svo sem engin stór átök sem mannskapurinn lenti í. Við fluttu ekki til baka fyrr en haustið 1974. Við vorum í skóla í Kópavogi og bjuggum þar í viðlagasjóðshúsi, við hefðum alveg reddað okkur þó við hefðum ekki farið aftur til Eyja. Við vorum samt alveg til í að flytja til baka.“

 

Varstu spennt að koma til baka?

,,Ég var svo sem ekkert spennt fyrir því að flytja til baka, en ég var mjög fljót að aðlagast lífinu í breyttu landslagi í Eyjum. Það var einhver sameiginlegur kraftur í samfélaginu og það var skemmtileg stemning í skólanum. Við systkinin og pabbi vorum sammála um að rétt hefði verið að koma til baka, á meðan mamma hafði sínar efasemdir, henni leið aldrei neitt sérstaklega vel í Eyjum.“

Hvernig leit eyjan út þegar þú komst til baka? Var húsið í lagi?

„Þegar maður er 13 ára þá pælir maður ekki mikið í umhverfinu, sem var kolsvart, það var meira spáð í að það væri bara ein eða tvær verslanir og ekki mikið um að vera. En svo opnaði félagsheimilið og það voru diskótek með meiru. Í Vestmannaeyjum hefur alltaf verið hægt að hafa ofan af fyrir sér, þrátt fyrir að það sé ekki mikið framboð af afþreyingu, þá bíður plássið og náttúran upp á marga möguleika.“

Hver er þín aðkoma að Goslokahátíðinni?

„Ég hefur verið partur af Goslokahátíðinni síðan ég flutti til Vestmannaeyja árið 2004 fyrir það hafði ég aldrei komið á Goslokahátíð. Árið 2004 var ég ráðin sem menningar- og markaðsfulltrúi. Upphaflega var ég markaðsfulltrúi og menningin kom seinna. Þegar ég fékk Goslokahátíðina í fangið var ekkert annað að gera en að spyrjast fyrir og lesa sig til, já og taka stöðuna með Andrési Sigurvins., sem bjó til fyrstu Goslokahátíðina á sínum tíma. Þetta gekk bara ágætlega. Ég nálgaðist verkefnið meira út frá markaðsmálunum þannig að ég lagði aukinn kraft í að kynna hátíðina og fá fólk til að koma og þannig bættist við fullt af gestum. Í nokkur ár sá ég ein um hátíðina og var síðan í nefndum í nokkur ár. Ég hætti svo mest megnis þessu nefndastússi þegar ég byrjaði með Eldheima enda eru Eldheimar meira en fullt starf, en ég hef samt alltaf gaman að því að koma að hátíðinni á einhvern hátt.

Ég hef alltaf reynt að finna einhverja sniðuga viðburði sem eru öðruvísi en það sem er „inn“ hverju sinni. Ég leita frekar að einhverju sem nær til allra aldurshópa og þá sérstaklega þeirra sem eru ennþá uppistandandi og muna eftir gosinu. Það var t.d. skemmtilegt að dusta rykið af hljómsveitinni Hálft í hvoru, sem var að skemmta í Eyjum fyrstu árin rétt eftir gos, en þeir höfðu ekki komið saman í mörg mörg ár þegar ég fékk þá til að spila á Goslokahátíðinni. Það er líka gaman að fara aftur í tímann og hlusta á stjörnur foreldranna og minnar æsku. Í ár koma hin ástsæla Svanhildur Jakobsdóttir sem bara allir þekkja og svo Ómar Ragnarsson sem ég fylgdi sem barn, hlustaði á barnalögin hans og svo grínið hans og fullorðins lögin. Það sem mér fannst líka svo áhugavert við að fá Ómar Ragnarsson er að hann var ekki bara söngvari og grínisti heldur líka fréttamaður og flugmaður, hann er maður sem hefur ýmsa fjöruna sopið. Hann var í báðum gosunum, Surtseyjar og Heimaeyjar og þannig að það er þokkalega kominn tími á að hann segi okkur nokkrar sögur af ferðum sínum til Eyja þegar það var eldgos.

Ég verð líka með unga efnilega listamenn sem eiga framtíðina fyrir sér, ég er mjög spennt fyrir tónleikum Guðnýjar Charlottu Harðardóttur píanista og bæjarlistamanns og söngkonunnar Maríu Rósar Ingólfsdóttur, Grímuverðlaunahafa ársins.

Goslokin í Eldheimum byrja strax síðdegis á fimmtudeginum með sýningu Erlings Klingenberg. Hann hefur verið að hasla sér völl bæði innan lands og utan. Það er mikill fengur og heiður að fá hann til Eyja og í Eldheima.“

Hefur aðkoma þín breyst frá því þú tókst fyrst þátt?

Það eru mismunandi atriði og áherslur. Mesta breytingin er að það er alltaf að bætast við reglugerðir og alltaf verið að banna þetta og hitt sem þótti alveg sjálfsagt fyrir nokkrum árum síðan. Ég sakna mest Skvísusundins. Ég fagna því hvernig hátíðin verður í ár, það er að segja niðri í bæ. Ég vona að það eigi framtíðina fyrir sér sem nýr mótsstaður, um að gera að nota miðbæinn og gera þetta að miðbæjarhátíð.

Hvað er skemmtilegast við goslokahelgina?

„Ég vinn svo mikið um goslokahelgina, er alveg bundin við Eldheima og næ því aldrei að sækja allt sem er í boði. Mér finnst skemmtileg þessi tilbreyting og fjölbreytileiki í alls konar viðburðum og hvað fólk er kreatíft að taka þátt og auðvitað er ég smá eigingjörn þegar kemur að viðburðum í Eldheimum og er alltaf með eitthvað sem mér sjálfri finnst skemmtilegt.“

Er mikill áhugi fyrir Eldheimum og er sá áhugi meiri þessa helgi en á venjulegum helgum?

„Það er í rauninni alveg magnað hvað það er mikill áhugi fyrir Eldheimum hjá þessu sama fólki sem kemur aftur og aftur á Goslokahátíð og í Eldheima. Þetta eru bæði Íslendingar af meginlandinu og svo gömlu Vestmannaeyingarnir. Í fyrra voru næstum engir erlendir ferðamenn eða ferðaskrifstofur. Þessa goslokahelgi er meira bókað fyrir erlenda gesti og hópa og er búið að fullbóka nokkra tíma fyrir gesti sem eru að koma óháðir Goslokahátíðinni út af safninu og Vestmannaeyjum, þannig það verður mikill fjölbreytileiki í gestunum þetta árið og það er auðvitað hið besta mál.“


Jafnlaunavottun Learncove