Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja vel sótt á síðasta ári
16% íbúa Vestmannaeyja koma daglega í Íþróttamiðstöðina.
Þrátt fyrir að sundlaugin hafi verið lokuð í 5 vikur á seinasta ári vegna endurbóta var aðsókn að Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja með eindæmum góð. Alls sóttu tæplega 250.000 manns einhverja þjónustu þangað sem hlýtur að vera einsdæmi í tiltölulega einangruðu byggðarlagi sem telur aðeins 4.349 í búa. Íþróttamiðstöðin var opin í alls 358 daga það árið og þetta merkir því að 16% íbúa Vestmannaeyja komi daglega í íþróttamiðstöðina eða 689 manns. Sé horft til þess hversu margir komu í sund þá kemur í ljós að þar var fjöldin alls 112.344 sem er því u.þ.b. 26 sundferðir á ári á hvern Vestamannaeying. Það segir okkur svo að á hverjum degi fara að meðaltali 314 manns í sund í Vestmannaeyjum eða 7,2% Vestmannaeyinga. Til samanburðar má geta þess að hver Reykvíkingur fer að meðaltali 17 sinnum á ári í sund og hver Hafnfirðingur fer í tæpar 17 ferðir á ári.
Þessi góða aðsókn á öðru fremur skýringu sína í því að íþróttamiðstöðin hefur á síðustu misserum fengið mikla andlistlyftingu. Öll aðkoma er hin glæsilegasta og aðbúnaður til allrar íþróttaiðkunar með því besta sem gerist á landinu. Líkamsræktarsalurinn er vel sóttur bæði af almenningi og íþróttafélögum. Þá munar miklu um þá tvo sali sem teknir voru í notkun í árslok 2001.
Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja leggur metnað sinn í allrahanda þjónustu við íþróttafólk hvort sem það stundar keppnisíþróttir eða æfir sér til heilsubótar. Reynt er að svara þörfum allra eftir því sem mögulegt er. Þannig hefur til að mynda í allnokkur ár verið gripið til þess að hækka hitan á sundlauginni um helgar úr 29.8° í 33° til þess að auka þjónustuna við barnafólk, aldraða og aðra sem vilja synda, leika sér eða bara slaka á í notalega heitu vatni. Líkamsræktarsalurinn er opinn alla daga, allan daginn fram á kvöld og það er að verða æ algengara að foreldrar fylgi börnum sínum til æfinga á vegum íþróttafélagana og fari sjálft í líkamsrækt á meðan. Á eftir fer svo öll fjölskyldan saman í sund.
Íþróttamiðstöðin Vestmannaeyjum