Íbúum Vestmannaeyja fjölgar um þúsundir
Lundinn sestur upp
Íbúum í Vestmannaeyjum fjölgar nú um hundruði þúsunda þessa dagana því nú eru lundarnir að koma aftur heim að sínu bóli og að setjast upp. Lundinn er ein af táknmyndum Vestmannaeyja og þykir það ávallt ánægjuefni þegar hann kemur til þess að dvelja yfir sumarið. Talið er að í Vestmannaeyjum séu um 4 milljónir lunda yfir sumartímann. Lundarnir sem nú eru komir eru einkum kynþroska fuglar en þeir koma fyrstir. U.þ.b. sjö mánuðir eru liðnir frá því að lundarnir yfirgáfu "byggðina? síðast. Allan þann tíma hefur fuglinn haldið sig á hafi úti langt fyrir sunnan og suðaustan land. Yngri fuglinn þvælist víða og er m.a. uppi undir ströndum Nýfundnalands. (sbr. upplýsingar frá Fiska- og Náttúrugripasafni Vestmannaeyja)
Á Fiska- og Náttúrugripasafni Vestmannaeyja er hægt að fylgjast með lundabyggðinni í Ystakletti í beinni útsendingu. Þar er einnig hægt að fræðast um lundann og fleiri áhugaverða hluti tengda náttúru Eyjanna.
Myndin sem hér fylgir með var tekin þann 25. apríl 2004 af lundum í Klifinu af undirrituðum en þegar lundinn sest upp er sumarið skammt undan og vil ég óska öllum Vestmannaeyingum gleðilegs sumars.
Frosti Gíslason
Umhverfis- og framkvæmdasviði Vestmannaeyjabæjar