10. maí 2013

Íbúakönnun um hótel við Hástein

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur samþykkt að fram fari íbúakönnun um byggingu hótels við Hástein og fer könnunin fram 21.-22. maí nk. Til að nýta atkvæðarétt sinn eru tvær leiðir í boði.
Annars vegar er hægt að kjósa í Safnahúsinu frá 08-16 báða dagana og hins vegar er um að ræða rafræna kosningu. Til þess að geta kosið rafrænt, þarf að sækja um svokallaðan Íslykil, sem er nokkurs konar auðkennislykill á Internetinu. Til þess að sækja um Íslykil þarf að fara á vefsíðuna http://www.island.is/islykill. Þar má sjá tengil „Panta Íslykil“ sem tekur notandann á síðu þar sem hægt er að panta Íslykil. Þar er slegin inn kennitala notandans og merkt við hvernig viðkomandi vill fá Íslykilinn afhentan. Í netbanka/heimabanka eða í bréfpósti á lögheimili. Athugið að það getur tekið allt að viku að fá lykilinn í bréfpósti og því er nauðsynlegt fyrir þá sem ekki hafa aðgang að heimabanka að sækja um lykilinn sem allra fyrst, hafi þeir á annað borð áhuga á að taka þátt í íbúakosningunni með rafrænum hætti. Eftir að Íslykillinn hefur borist þarf að skrá sig inn á „Mínar síður“ hjá island.is Við það er handhafa Íslykilsins boðið að velja sér nýjan auðkennisstreng sem betur er að muna. Allar nánari upplýsingar um Íslykil Þjóðskrár Íslands má finna á vefsíðunni http://www.island.is/islykill. Aldrei áður hefur verið leitað beint til bæjarbúa eftir afstöðu til mála af þessu tagi. Á næstu dögum verður sent kynningarefni í öll hús í Vestmannaeyjum sem fólk er beðið um að kynna sér. Er það von Vestmannaeyjabæjar að sem flestir nýti sér rétt sinn og taki þátt í atkvæðagreiðslunni.

Jafnlaunavottun Learncove