8. apríl 2005

Hver er munurinn á lúterskri trú og kaþólskri.

Við andlát Jóhannesar páls páfa II fáum við stöðugar fréttir af ýmsum siðum og venjum sem tengjast andláti, útför og svo vali á nýjum páfa. En hver skyldi þá vera munurinn á trúnni sem Marteinn Lúther boðaði og svo þei

Við andlát Jóhannesar páls páfa II fáum við stöðugar fréttir af ýmsum siðum og venjum sem tengjast andláti, útför og svo vali á nýjum páfa. En hver skyldi þá vera munurinn á trúnni sem Marteinn Lúther boðaði og svo þeirri kaþólsku?

Í hinum kristna heimi eru starfræktar ýmsar kirkjudeildir. Menn iðka kristna trú á margvíslegan hátt og leggja mismunandi merkingu í orð Biblíunnar. Það sem hér fer á eftir er ef til vill ekki fullnægjandi svar við spurningunni en gefur þó einhverja hugmynd um muninn á kaþólskri trú og lúterskri.

Lúterstrú - kaþólsk trú

Á Íslandi er lúterstrú ríkjandi. Langflestir Íslendingar aðhyllast þær kenningar sem Marteinn Lúther boðaði á 16. öld. Þá var hin rómversk-kaþólska kirkja stærsta og voldugasta valdastofnun í Evrópu. Lúther þótti nóg um veraldlega spillingu innan kirkjunnar en hann taldi líka ýmsar kenningar hennar rangar.

Síðasti kaþólski biskupinn á Íslandi var Jón Arason. Hann var hálshöggvinn í Skálholti árið 1550. Eftir aftöku Jóns var hinn svokallaði lúterski siður tekinn upp. Með tilkomu lúterstrúar var bannað að aðhyllast kaþólska trú að viðlögðu lífláti eða útlegð. Innan fárra ára var kirkjan orðin lútersk þó að flestir hinna gömlu kaþólsku siða lifðu enn um langa hríð. Fram til 1857 var enginn kaþólskur maður á Íslandi. Þá fengu tveir prestar, Bernard Bernard og Jean-Baptiste Baudoin, leyfi til að þjóna frönskum sjómönnum sem voru að veiðum við Ísland. Nánar má lesa um sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi á vefsíðu hennar undir krækjunni Saga kaþólsku kirkjunar á Íslandi.

Hvað greinir kaþólska trú frá lúterskri?

Í svari við þessari spurningu sem birtist á Vísindavef Háskólans segir að túlka megi "muninn á kaþólskum sið og lúterskum svo að trú hins lúterska sé huglæg - ósýnileg - og undir honum einum komin en trú kaþólskra sé að nokkru hlutlæg - hún sést - er fólgin í réttum verkum. (Trúaður lúterskur maður vinnur þó rétt verk, en hann dæmist ekki af þeim og trú hans ræðst ekki af þeim.)"

Altarissakramentið

Í svari Vísindavefjarins við fyrrgreindri spurningu kemur líka fram að ef kaþólskur maður bergir brauðið við altarisgönguna verður brauðið að holdi Krists í munni honum vegna þess að presturinn framkvæmir athöfnina fyrir hönd kirkjunnar og Jesú Krists. Hvort sá sem gengur til altaris eða veitir sakramentið trúir á athöfnina er málinu óviðkomandi í kaþólskum sið. Altarisganga lúterskra hefur ekkert gildi sem slík. Hún fær einungis merkingu ef trúaður maður tekur þátt í henni. Þá breytist brauðið í líkama Krists.

Páfinn

Páfinn sem situr í Vatíkaninu í Róm er æðsti yfirmaður kaþólskrar kirkju. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því að vald páfa innan kaþólsku kirkjunnar er grundvallað á því er Jesús útnefnir Símon Pétur stofnanda kristinnar kirkju. En í Matteusarguðspjalli 16. kafla; 18-19 segir:

"Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum.? Þannig telur kaþólska kirkjan að Jesús hafi útnefnt Pétur leiðtoga þeirra sem útbreiða skyldu hina kristnu trú.

Kaþólska kirkjan telur að páfi erfi þetta vald Símonar Péturs. Páfinn er því arftaki postulans, hefur umboð sitt beint frá Kristi. Lúther var ekki sammála þessari túlkun. Hann taldi að Pétur væri dæmi um sannkristinn mann en Kristur væri kletturinn, allir menn geta þá nálgast himnaríki fyrir trú sína.

Innan kaþólskrar kirkju geta menn tryggt sér dvöl í himnaríki með réttum gjörðum en Lúther taldi að einungis fyrir trú gætu menn orðið hólpnir.

Sakramenti

Sakramenti kaþólskrar kirkju eru sjö en aðeins tvö hjá lúterskum. En sakramenti er verknaður sem táknar nærveru Krists. Menn segja að Kristur hafi látið eftir sig sakramentin til að auðvelda mönnum að nálgast sig. Sakramentin skírn og altarissakramentið eru þau einu sem eru sameiginleg báðum kirkjudeildum en kaþólskir telja að ferming, hjónavígsla, prestvígsla, sakramenti sjúkra og skriftir séu líka heilög sakramenti. Sakramenti eru óafturkallanleg fyrir guði, því eru t.d. hjónaskilnaðir ekki leyfðir nema í undantekningartilvikum hjá kaþólsku kirkjunni.

Hreinsunareldurinn

Í kaþólskum sið er gert ráð fyrir því að syndugir menn geti hreinsast af syndum sínum með því að eiga kvalafulla vist í hreinsunareldinum en fái síðan vist með Guði. Lúterskir hafna hugmyndinni um hreinsunareldinn.

Krækjur

Kaþólska kirkjan á Íslandi

Þjóðkirkjan á Íslandi

Efni greinarinnar er að mestu sótt í svar sem birtist á Vísindavef Háskóla Íslands en höfundur þess er Haukur Már Helgason. Auk þess var leitað fanga á vefsíðu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi.

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.


Jafnlaunavottun Learncove