18. júní 2021

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs afhent í annað sinn

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru veitt fyrir þrjú framúrskarandi verkefni við GRV.

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru afhent þann 17. júní, við hátíðlega athöfn í Einarsstofu. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru veitt en þau voru veitt í fyrsta skipti í fyrra. Arna Huld Sigurðardóttir, formaður fræðsluráðs, afhenti verðlaunin fyrir hönd ráðsins.

Markmið með Hvatningarverðlaunum er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til.

21 tilnefning barst um áhugaverð verkefni þetta árið og ber það vott um það faglega og gróskumikla starf sem fram fer í okkar frábæru skólum. Fræðsluráð valdi þrjú verkefni af þeim sem tilnefnd voru til sérstakrar viðurkenningar og hljóta þeir aðilar sem að þeim stóðu Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2021.

Helga Jóhanna Harðardóttir, Sara Jóhannsdóttir, Arnheiður Pálsdóttir, Thelma Hrund Kristjánsdóttir og Lóa Hrund Sigurbjörnsdóttir hljóta Hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrir Himingeiminn en það er þemaverkefni í 6. bekk þar sem nemendur unnu með plánetur, stjörnur, stjörnumerki, geimferðir og geimverur. Við vinnu verkefnisins var m.a. komið inn á lestur, lesskilning, stærðfræði og upplýsingatækni þar sem verkefnum var skilað rafrænt.

Sæfinna Ásbjörnsdóttir hlýtur Hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrir framúrskarandi starf á bókasafni Barnaskólans. Hún er dugleg og áhugasöm um að hvetja nemendur við að finna bækur við hæfi. Hún er með ákveðin þemu í hverjum mánuði sem ætlað er að kveikja áhuga nemenda á lestri. Einnig er hún með fésbókarsíðu þar sem hún setur inn upplýsingar, m.a. um nýjar bækur. Þetta er allt liður í að auka lestraránægju nemenda.

Erla Gísladóttir hlýtur Hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrir verkefnið Fótbolti með 3. bekk. Erla tók það í sínar hendur að búa til góða og jákvæða stemningu á gervigrasvellinum við Hamarsskóla í frímínútum. Henni tókst að fá nánast alla í árganginum til að sameinast um fótbolta, þar sem hún skipti í lið og var sjálf dómari. Verkefnið stóð í 5 vikur og í lokin var haldið lokahóf með verðlaunaafhendingu.

Vestmannaeyjabær óskar verðlaunahöfum til hamingju og þakkar fyrir framlag þeirra til fræðslumála.

  • H4
  • H2
  • H1
  • H3