16. maí 2023

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs 2023 afhent og samningar vegna styrkja úr Þróunarsjóði undirritaðir

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru afhent þann 15. maí við háðtíðlega athöfn í Einarsstofu. Við sama tækifæri voru samningar undirritaðir við þá sem hljóta styrki úr Þróunarsjóði leik- og grunnskóla. Aníta Jóhannsdóttir, formaður fræðsluráðs, afhenti verðlaunin og undirritaði samningana fyrir hönd fræðsluráðs.



Hvatningarverðlaun fræðsluráðs voru afhent í fjórða sinn en markmiðið með þeim er að vekja athygli á því sem vel er gert í fræðslustarfi. Verðlaunin eru hugsuð sem hrós og hvatning til þeirra sem sýnt hafa framúrskarandi vinnu og er einnig staðfesting á því að viðkomandi er fyrirmynd á því sviði sem viðurkenningin nær til.

Átján tilnefningar til Hvatningarverðlauna fræðsluráðs bárust þetta árið. Fræðsluráð valdi að venju úr þeim tilnefningum og veitti eftirtöldum aðilum sérstaka viðurkenningu:

Ásdísi Steinunni Tómasdóttur fyrir Árbók 10. bekkjar í GRV. Ásdís átti frumkvæðið að verkefninu og hefur haft umsjón með því frá því fyrsta Árbókin var gefin út árið 2015 en hún hefur verið gefin út árlega frá þeim tíma. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða minningarbók sem nemendur 10. bekkjar fá á útskriftardegi sínum úr GRV.

Guðrúnu Lilju Friðgeirsdóttur fyrir lýðræði í leikskólastarfi í leikskólanum Sóla. Guðrún Lilja hefur markvisst unnið að því að innleiða lýðræði barna í leikskólann Sóla, m.a. með því að flétta það saman við fræði Hjallastefnunnar. Þá hefur hún unnið starfendarannsókn samhliða innleiðingunni til að meta árangur af henni sem hún hefur miðlað til starfsfólks leikskólans og mun án efa gagnast leikskólastarfi víðar.

Mörtu Jónsdóttur fyrir tónlist og söngfundi í leikskólanum Sóla. Marta hefur eflt tónlistarstarf í leikskólanum Sóla með skipulögðum söngfundum þar sem öll börn leikskólans taka þátt. Að auki hafa verið haldnir tveir söngfundir á ári þar sem foreldrum hefur staðið til boða að taka þátt. Á tímum heimsfaraldurs þegar samkomutakmarkanir voru við lýði hélt Marta rafræna söngfundi með börnunum.

Samningar vegna styrkja úr Þróunarsjóði leik- og grunnskóla voru undirritaðir og var það einnig í fjórða sinn sem það var gert. Markmiðið með Þróunarsjóði leik- og grunnskóla er að stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólunum. Sex verkefni hlutu styrk úr Þróunarsjóði leik- og grunnskóla þetta árið og nemur heildarupphæð styrkja kr. 3.589.000 Eftalin verkefni hljóta styrk:

Rafrænir leikir í heimabyggð-Rötum saman. Markmiðið með verkefninu er að auka samverustundir fjölskyldna og fræða þátttakendur um menningu og sögu Vestmannaeyja. Útbúnir verða níu mismunandi ratleikir sem fjölskyldur geta leyst saman á þeim tíma sem þeim hentar. Jafnframt verður útbúin vefsíða sem heldur utan um gögn og upplýsingar. Guðbjörg Guðmannsdóttir og Óskar Jósúason standa að verkefninu.

Nýsköpun og miðlun myndefnis með aðstoð gervigreindar. Markmiðið með verkefninu er að styrkja tæknikunnáttu nemenda og kennara svo þeir verði betur undirbúnir fyrir komandi áskoranir í námi og menntasamfélaginu. Útbúin verða stutt örmyndbönd um bjargir í tæknimálum sem framleidd verða með aðstoð gervigreindar. Guðbjörg Guðmannsdóttir og Unnur Líf Ingadóttir Imsland standa að verkefninu.

Handbók um stærðfræðikennslu í Víkinni. Markmið verkefnisins er að efla stærðfræðikennslu í Víkinni með því að útbúa aðgengilega handbók þar sem áhersluþættir eru skýrir og hugmyndir að kennslustundum aðgengilegar. Hildur Rún Róbertsdóttir og Sigríður Diljá Magnúsdóttir standa að verkefninu.

Lestrarhestarnir er verkefni þar sem markmiðið er að hjálpa nemendum sem hafa átt í erfiðleikum með lestur að uppgötva lestraráhuga sinn og bjóða þeim upp á óhefðbundna leið til að nálgast lesturinn. Unnin verða lestrarverkefni tengd hestum. Nina Anna Dau stendur að verkefninu.

Íslenskuverkefni er verkefni sem hefur það að markmiði að auka áhuga á lestri og efla lesskilning nemenda. Unnin verða fjölbreytt lesskilningsverkefni sem höfða til nemenda. Snjólaug Elín Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir Imsland standa að verkefninu.

Bókviti er verkefni sem hefur það að markmiði að kveikja áhuga nemenda á lestri með því að auðvelda þeim að finna bækur eftir áhuga. Um er að ræða efnisflokkun bóka í forriti (appi). Drífa Þöll Arnardóttir, Esther Bergsdóttir og Sæfinna Ásbjörnsdóttir standa að verkefninu.

Vestmannaeyjabær óskar verðlauna- og styrkhöfum innilega til hamingju. Verkefnin bera vott um það gróskumikla starf sem er í skólum sveitarfélagsins og þá frábæru kennara sem eru tilbúnir að taka frumkvæðið og leggja sitt að mörkum til að gera gott skólastarf enn betra.


Jafnlaunavottun Learncove