Hraunbúðir
Fjölbreytt starf fer fram á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hraunbúðum.
Oft leggja leið sína þangað tónlistarmenn og aðrir skemmtikraftar og skemmta heimilismönnum og öðrum. Spilakvöld eru haldin hálfsmánaðarlega. Tómstundastarfið er öflugt og fer þar Hanna Þórðardóttir fremst í flokki en hún sér um föndurstofuna og hefur gert í 35 ár. Þar er í boði fjölbreytt tómstundaiðja fyrir konur og karla og er Hanna óþreytandi við að finna ný og spennandi verkefni. Föndurstofan er opin frá kl. 13:30 til kl. 17 virka daga. Hún er ætluð heimilisfólki, þeim sem koma í dagdvöl á Hraunbúðir og eldri borgurum utan úr bæ sem vilja sækja sér tómstundastarf. Þar er saumað í, málað, föndrað, prjónað ofl. Prestar Landakirkju koma svo hálfsmánaðarlega og halda helgistundir auk þess eru messur einu sinni í mánuði.
Viðbót við það öfluga starf sem fer fram á föndurstofunni er sú nýbreytni að Kristján Óskarsson er með myndasýningar á Hraunbúðum u.þ.b tvisvar sinnum í mánuði. Hann sýnir fólkinu gamlar upptökur sem hann á í fórum sér og ræðir um þær við fólkið. Það hefur einnig vakið mikla gleði enda Kristján eða Stjáni á Emmunni eins og hann er líka kallaður annálaður gleðigjafi. Sjá nánar á www.hraunbudir.is