Hraun og menn og stakkstæðið við Olnboga
Merkingu listaverka að ljúka, og vel miðar við uppgröft á stakkstæðinu við Olnboga
Undanfarna daga hefur verið unnið að því að merkja listaverkin sem unnin voru í verkefninu Hraun og menn, árið 1999. Þá unnu 23 listamenn frá öllum Norðurlöndunum listaverk sem komið var fyrir víðs vegar á Heimaey. Þau verk hafa hins vegar verið með öllu ómerkt fram til þessa en nú er búið að bæta úr því.
Settar hafa verið plötur úr ryðfríu stáli á verkin eða við þau og í plötuna grafið nafn verkefnisins og ártal, heiti verksins og nafn listamannsins. Eftir er að merkja fjögur af 23 verkum, en eftir er að ganga endanlega frá þeim fjórum verkum og verður gert í sumar.
Plöturnar voru unnar af fyrirtækinu Skilti og merkingar í Reykjanesbæ sem átti mjög hagstætt tilboð í verkið, en vinnan við að koma merkingunum fyrir er unnin í sérstöku átaksverkefni á vegum bæjarins.
Í framhaldi af þessu er nú verið að vinna að skrá yfir þessi verk og önnur útilistaverk í Vestmannaeyjum og ætlunin að útbúa síðar meir bækling með helstu upplýsingum um þau verk ásamt staðsetningu þeirra.
Stakkstæði við Olnboga
Nýlega var byrjað á sérstöku átaksverkefni á vegum bæjarins við endurgerð stakkstæðis við Olnboga. Stakkstæði voru fram yfir miðja síðustu öld mjög áberandi í Vestmannaeyjum, grjótreitir þar sem saltfiskur var sólþurrkaður á sumrin. Nær öll stakkstæðin hurfu síðan undir mannvirki og götur eftir að aðrar verkunaraðferðir voru teknar upp.
Sá glöggi maður, Hávarður Sigurðsson í Áhaldahúsinu, benti menningarmálanefnd á það sl. haust að gamalt stakkstæði væri undir jarðvegslagi við Olnboga. Að hans áeggjan var ráðist í að endurbyggja það og er sú vinna nú hafin. Hafa ungir menn að undanförnu unnið við að fletta jarðvegi ofan af grjótinu undir stjórn Áhaldahússmanna og í samráði við menningarfulltrúa. Ætlunin er að koma stakkstæðinu í sem næst upprunalegt ástand í sumar enda eðlilegt að varðveita jafn veigamikinn þátt úr atvinnusögunni og stakkstæðin voru.
Hávarður segir að þetta stakkstæði hafi verið lítið en sérlega fallegt og ekki skemmir fyrir að nánasta umhverfi þess er sögulegt þar sem þekktasti draugur Eyjanna, Olnbogadraugurinn, á sína sögu þar.
Sigurgeir Jónsson menningarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar.