Hlynnt hugmyndinni að breyta kerfinu
Innlegg frá grunnskólakennara í umræðuna um skólamálin
Góðan daginn kæra fólk. Mig langaði bara aðeins að láta heyra í mér varðandi fyrirhugaðar breytingar á skólastarfinu.
Nokkrir jákvæðir punktar. Sem grunnskólakennari hér í bæ er ég alfarið hlynnt þeirri hugmynd að breyta þessu kerfi sem hefur verið gangandi undanfarin ár. Ég tel mikla þörf á aukinni samvinnu kennara milli skóla en í dag er hún varla sjáanleg. Ég tel það ekki mikla samvinnu að hittast einu sinni yfir veturinn í lítilli lautarferð!!
Sérhæfing kennara er mikilvæg en það er erfitt eins og staðan er í dag, auk þess eru bekkjardeildir í hvorum skólanum fyrir sig of fáar til að kennarar geti stundað vinnu samhliða þeirri menntun sem þeir hafa. Sérgreinastofur ættu þann kost að verða frábærar þar sem tæki yrðu betur nýtt og meiri möguleiki á fullkomnari græjum. (óþarfi að kaupa alltaf tvennt af öllu). Þetta eru auðvitað atriði sem hafa oft komið fram auk þess eru þetta hugmyndir sem ég skellti á gula miða á fundinum upp í Hamarsskóla á dögunum.
En það sem hefur pirrað mig mest í þessari umræðu er kvörtunin yfir vegalengdinni í skólann. Hvaða vegalengd? Krakkarnir af Illugagötu, Hólagötu og jafnvel götum sem liggja nær Hamarsskóla, eru keyrð í skólann ef ekki er frostlaust og logn!!! Það er nú líka eitt af vandamálum samtímans að krakkar þurfa ekkert að hreyfa sig nú til dags og því ekki að leyfa þeim að skokka í skólann á morgnanna. Nú eða foreldrar geta haldið áfram að letja þau með því að gefa þeim skutl. Auðvitað er þetta ekki alhæfing en alveg fáránlega nálægt sannleikanum. Sumir krakkar labba alltaf í skólann og hafa gaman af því.
Hvað er líka svo slæmt við skólabílinn? Skemmtileg samverustund á morgnanna, atvinnuskapandi og gefur bænum svolítið breytta ásýnd. Allt í lagi með það.
Ég veit líka alveg af þeim göllum sem fylgja þessari breytingu en ákvað að láta meira bera á kostunum (að mínu mati) í þessu bréfi. Þetta er bara hluti af þeirri umræðu sem hefur farið fram við eldhúsborðið hjá okkur vinkonunum og datt okkur í hug að leyfa fleirum að heyra í okkur.
Kveðja
Guðný Kristjánsdóttir grunnskólakennari