Hjólað í vinnuna 17. - 28. maí.
Allir þeir sem koma sér með ?eigin vélarafli" til vinnu s.s. hjólandi, gangandi eða á línuskautum geta tekið þátt.
Dagana 17. - 28. maí mun fræðslu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, Ísland á iði, standa fyrir fyrirtækjakeppninni ?Hjólað í vinnuna"
Skráning fer fram á heimasíðu verkefnisins isisport.is. Á síðasta ári tóku 71 lið frá 45 fyrirtækum þátt og var mikil ánægja meðal keppenda. Nú er bara að búa til lið og skrá sig. Sýnum börnunum fordæmi förum í vinnu á eigin vélarafli.
Íþrótta- og æskulýðsráð Vestmannaeyja skorar á Vestmannaeyinga að taka þátt í þessu átaki.
Ólöf A. Elíasdóttir, íþrótta-og æskulýðsfulltrúi.
Frekari upplýsingar hér fyrir neðan:
Hjólað í vinnuna ,17. - 28. maí 2004,,Hjólað í vinnuna" er heilbrigð fyrirtækjasamkeppni á vegum ÍSÍ, Ísland á iði, haldin í samstarfi við hjólreiðasamtök vikurnar 17. - 28. maí.
Meginmarkmið ,,Hjólað í vinnuna" er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Í ár er sú nýjung að allir þeir sem koma sér með eigin vélarafli til og frá vinnu eru gjaldgengir þátttakendur þ.e. hjóla, skokka, ganga, nota línuskauta o.s.frv. Þeir sem taka strætó geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin er til og frá stoppistöð.
Keppnisgreinarnar eru 2:
1) Flestir þátttökudagar (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna í fyrirtækinu).
2) Flestir km (hlutfallslega m.v. fjölda starfsmanna í fyrirtækinu).
Keppnisflokkarnir eru 6 eftir fjölda starfsmanna í fyrirtæki:
Flokkarnir miðast við heildar fjölda starfsmanna í fyrirtækinu:
1-9 starfsmenn, 10-29 starfsm., 30-69 starfsm., 70-149 starfsm.,150-399 starfsm. og 400 o.fl. starfsmenn.
Liðstjóri heldur utan um sitt lið
Hvert lið má innihalda 1-10 liðsmenn. Í hverju liði er liðsstjóri sem sér um að skrá lið sitt til þátttöku og hann heldur einnig utan um daglega skráningu á netinu.
Ef vinnustaðurinn er fámennur getur verið skemmtilegra að slá saman í lið með öðrum.
Sami vinnustaður, mörg lið
Ef fleiri en 10 hjóla á sama vinnustað er einfalt að stofna lið númer tvö, þrjú....undir kennitölu fyrirtækisins. Þannig telur árangur liðanna sameiginlega fyrir vinnustaðinn. Það er tilvalið að skipta vinnustaðnum upp, t.d. miða við deildir á sjúkrahúsi eða útibú í bönkum.
Skorað á önnur sveitarfélög
Á síðunni er yfirlit yfir hvernig vinnustaðir í mismunandi sveitarfélögum eru að standa sig. Ein hugmynd er því að skora á önnur sveitarfélög í skemmtilega og heilsusamlega keppni.
Sendið inn mynd af liðinu
Öll liðin sem senda inn myndir lenda í potti þar sem dregin verða út myndarleg verðlaun.
Nánari upplýsingar og skráning eru á www.isisport.is