Héraðsskjalasafni færðar 2 stórgjafir.
Dagný Þorsteinsdóttir frá Laufási og Kristín Georgsdóttir afhenda höfðinglegar gjafir til Skjalasafnsins.
Á mánudaginn afhenti Dagný Þorsteinsdóttir frá Laufási safninu til varðveislu mikið magn bréfa og fleiri skjöl úr fórum föður hennar Þorsteins Jónssonar útvegsbónda frá Laufási (1880-1965). Í þessu safni er mikið af merkilegu efni sem vafalaust á eftir að koma fræðimönnum sem rannsaka sögu Vestmannaeyja að miklu gagni í framtíðinni. Þorsteinn var .þekktur fyrir skrif sín um sjávarútveg fyrri tíðar í Eyjum og eru þessi skjöl kærkomin viðbót við safn hans sem fyrir er í Héraðsskjalasafninu og mun nú verða farið í það af krafti að gagna frá þessum skjölum til frambúðar sem viðbót við þau skjöl sem fyrir eru í safninu.
Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja þakkar gefendum höfðinglega gjöf og hlýhug i sinn garð. Safnið hvetur jafnframt Vestmannaeyinga til þess að hafa safnið í huga þegar farið er í gegnum gömul gögn sem víða leynast í heimahúsum.
Á þriðjudaginn afhenti Kristín Georgsdóttir, fráfarandi umboðsmaður Vátryggingafélags Íslands í Vestmannaeyjum Héraðsskjalasafninu til varðveislu mikið safn Virðingarbóka Brunabótafélags Íslands í Vestmannaeyjum. Þetta eru um það bil 40-50 bækur sem spanna stóran hluta af síðustu öld til þess er félagið var lagt niður.
Héraðsskjalasafnið færir gefendum þakkir fyrir höfðinglega gjöf og hlýhug í sinn garð. Safnið hvetur jafnframt önnur fyrirtæki með starfsemi í Eyjum og standa í sömu sporum til þess að hugsa til Héraðsskjalasafnsins.
Jóna Björg Guðmundsdóttir, héraðskjalavörður
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.