28. desember 2004

Heimili, skóli og fræðsluyfirvöld.

Hvernig bætum við nemendum upp kennslutap vegna verkfalls? Fræðsluyfirvöld  skoða nú hvaða  hugmyndir eru uppi um hvernig bæta megi nemendum upp  kennslutap vegna  verkfalls kennara.  Leitað hefur

Hvernig bætum við nemendum upp kennslutap vegna verkfalls?

Fræðsluyfirvöld  skoða nú hvaða  hugmyndir eru uppi um hvernig bæta megi nemendum upp  kennslutap vegna  verkfalls kennara.  Leitað hefur verið eftir hugmyndum foreldra  og eru foreldrar grunnskólabarna í Vestmannaeyjum sérstaklega hvattir til að  koma skoðunum sínum á framfæri við fræðsluyfirvöld  ýmist með því að hringja í fræðslufulltrúa í síma 488-2000  eða senda honum línu í tölvupósti: erna@vestmannaeyjar.is.eða framkvæmdastjóra fræðslu-og menningarsviðs Andrési Sigurvinssyni andres@vestmannaeyjar.is   

Fræðsluyfirvöld telja að gott samstarf heimila,  skóla og fræðsluyfirvalda  eina af meginforsendum fyrir því að nemendum geti liðið vel og náð árangri í skólanum.

Fræðsluskrifstofu barst nýlega bréf  frá samtökunum  Heimili og skóli.  Fulltrúar samtakanna fóru á fund í Menntamálaráðuneytinu til að ræða aðgerðir  og samstarf í kjölfar verkfalls.  Meðfylgjandi punktar eru  helstu áhersluatriði fundarins:         

  1. Kennarar og skólastjórnendur þurfa tíma til að jafna sig á atvikum liðinna vikna, í einhverjum tilvika brostinna vona eða væntinga og sárinda á milli starfsmanna.
  2. Mikilvægt er að kennarar, nemendur og foreldrar sýni hvorum öðrum gagnkvæma velvild, jákvæð viðhorf og samstarfsvilja.
  3. Leggja þarf áherslu á gagnkvæma upplýsingagjöf á milli heimila og skóla.  Foreldrar hafa skoðun á starfinu innan skólans og vilja fylgjast með.  Þeir þurfa líka að vera tilbúnir að leggja kennurum lið.  Mikilvægt er að foreldraráð séu höfð með í ráðum við endurskipulagingu skólastarfsins, s.s. í þeim tilvikum þar sem breytingar eru gerðar á skóladagatali. Mikilvægt er að nýta vel þá daga sem enn eru eftir á þessu skólaári.
  4. Gæta þarf þess að samræmd próf í 4. og 7. bekk stýri ekki um of skólastarfinu. Mikilvægt er að leggja áherslu á markmið prófanna, að meta stöðu hvers nemanda.  Þá er enn mikilvægara að unnið sé markvisst úr niðurstöðum prófanna nemendum til hagsbóta.  Í þeirri eftirfylgni er samstarf kennara og foreldra mjög mikilvægt.
  5. Fyrir nemendur í 1.- 4. bekk er mikilvægt að skólar bjóði upp á þjónustu heilsdagsskólans í jóla- og páskaleyfum. Bjóða þarf upp á góða metnaðarfulla dagskrá t.d. í samvinnu við íþrótta- og tómstundafélög, skáta og fleiri aðila.
  6. Mikilvægt er að efla aðstoð við heimanám fyrir nemendur í öllum árgöngum.  Starfsemina þarf að kynna vel fyrir nemendum og foreldrum og hvetja þarf sérstaklega nemendur til þátttöku sem standa höllum fæti. 
  7. Huga þarf sérstaklega að nemendum í 10. bekk og hvernig komið er á móts við þann tíma sem þeir misstu úr. Mikilvægt er að nýta tíman vel til náms og leggja ekki of mikla áherslu á að svara gömlum prófum Bent er á að sérfræðingar Námsmatsstofnunar hafa gert samanburðarrannsókn þar sem borinn var saman árangur nemenda sem leystu mörg gömul samræmd próf við árangur nemenda sem gerðu   það ekki og munaði 2% á árangri þessara nemenda, sem er ekki marktækur munur. Það kemur þó eflaust flestum að góðum notum að leysa eitt samræmt próf þannig að þeir fái tilfinningu fyrir því hvernig prófin eru.
  8. Bjóða þarf upp á aukatíma fyrir þá nemendur í 10. bekk sem vilja og mikilvægt er að það verði kynnt á þann hátt að sem flestir nýti sér það.  Rúmlega  90% nemenda taka samræmt próf í stærðfræði, íslensku og ensku þannig að leggja þarf ríkari áherslu á þær námsgreinar en aðrar. 

 

Mikilvægt er að bæklingurinn Nám að loknum grunnskóla komi út sem fyrst og verði markvisst nýttur til þess að kynna nemendum þá valmöguleika sem þeir hafa. Markvisst námsval verði láti stýra vali á prófum þannig að nemendur séu ekki að taka fleiri próf en þeir þurfa. Námsráðgjafar þurfa að fræða foreldra og nemendur markvisst um inntökuskilyrði framhaldsskólanna og leiðbeina með val á prófum.

Framhaldsskólar þurfa einnig að horfa til skólaeinkunnar við inntöku þar sem það er enn mikilvægara nú en áður að þær einkunnir hafi vægi. Framhaldsskólarnir þurfa að bjóða upp á markvissa aðstoð/hópráðgjöf næsta haust fyrir þá nemendur sem taldir eru líklegir til að vera í áhættu vegna brottfalls. Huga þarf að eflingu námsráðgjafar vegna þessa.

 

II. Umræða um framtíðarskipulag kjarasamninga og framtíð skólastarfs í grunnskólum

1.     Það þarf að tryggja að grunnskólakennarar sjái sig ekki knúna til að fara aftur í verkfall.

2.     Umræða um framtíðarskipulag kjarasamninga kennara þarf að hefjast í síðasta lagi við lok þessa skólaárs.

3.     Mikilvægt er að allir helstu hagsmunaaðilar séu hafðir með í ráðum, þar með talið foreldrar.

4.     Hugmynd:  Halda opið málþing um þetta málefni á vormánuðum með þátttöku helstu aðila - einnig má nota Menntagáttina fyrir uppbyggilega umræðu.

Erna Jóhannesdóttir, fræðslufulltrúi.

fræðslu og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.


Jafnlaunavottun Learncove