29. janúar 2004

Heildstæður grunnskóli eða skipt við unglingstig

Frá málþingi - það sem  foreldrar höfðu til málanna að leggja. Á málþingi sem ég sat fyrir nokkrum árum, þar sem fjallað var um heildstæðan grunnskóla 

Frá málþingi - það sem  foreldrar höfðu til málanna að leggja.

Á málþingi sem ég sat fyrir nokkrum árum, þar sem fjallað var um heildstæðan grunnskóla  eða skiptingu við unglingastig  voru foreldrar á  mælendaskrá.  Þeir sögðu m.a.:

Nokkrir kostir við skipti við unglingastig:

 Nýtt umhverfi fyrir börnin var talinn kostur.  Spurt var hvort allir fullorðnir væru reiðubúnir að ákveða 10 ár fram í tímann að í þessum húsakynnum ætli þeir að starfa með nokkurn veginn sömu vinnufélögum?  Því var haldið fram að það, að skipta um umhverfi, endurveki áhuga og skólaskiptin verða tímapunktur í skólagöngunni.

Talið var að reynslan gæti auðveldað skiptin yfir í framhaldsskóla.

Einnig var rætt um að  það væri áhugavert þegar nýir félagar koma til sögunnar, þar með ykist  félagavalið, sem væri áhugaverður kostur.  Bent var á að frímínútur og félagslíf væri  með öðrum hætti í aldursskiptum skóla. 

Jafnframt  var talað um að hægt væri að miða allt félagslíf við ákveðinn aldurshóp en þyrfti ekki að samræma  öðrum aldurshópi.

Rætt var um  fordóma og jafnvel einelti sem hefði viðgengist  á yngri árum væri oft hægt að hrista af sér við flutning í annan skóla því rótgrónum bekkjum væri oft tvístrað þegar upp á eldri aldursstig kæmi.  Einnig var bent á  það að margir nemendur taka nýjum félögum fegins hendi  eftir margra ára samleið  með  sömu bekkjarfélögum og sama  kennara.

Sagt var frá svokölluðu Skólafærninámskeiði í unglingaskóla. Um var að ræða verkefni sem hafði þau markmið að stuðla að bættu skóla- og heimanámi nemenda og stuðla að virkum tengslum milli foreldra og skóla og  milli foreldra innbyrðis.  Einnig var lögð áhersla  á að kanna viðhorf foreldra til uppeldis og skóla  og móta forvarnarstefnu fyrir árganginn sem unnið var með.

Samræmdu prófin komu til umræðu.  Bent var á að það mætti aldrei gleymast að ekki er aðeins verið að búa unglingana undir samræmd próf.  Það væri ekki síður verið að búa þá undir það sem við tekur - svo sem auknar námskröfur sem gerðar verða til þeirra þegar í framhaldsskólann er komið.  Þess vegna  væri æ brýnna að ráða til starfa sérmenntaða kennara í einstökum greinum.  Talið var að möguleikar á að ráða slíka kennara hlytu að vera meiri í aldurskiptum skóla fremur  en heildstæðum.

Rætt var um að unglingum í  unglingaskóla gæfist frekar kostur á að velja námshópa eftir getu en í heildstæðum skóla.  Slíkt hefði gefist vel í ákveðnum skólum í Reykjavík. Talað var um að unglingastigið krefðist mikillar sérhæfingar kennara. Möguleikar á fjölbreyttu námsframboði og vali væru mun meiri í safnskóla en heildstæðum skóla.  Valhópar væru stærri og því ódýrari í rekstri en í fámennari skólum.  Bent var á að í nýrri  námsskrá væri boðað  að nemendur ættu að hafa meira val og  að auðveldara væri að koma til móts við það í aldursskiptum skóla.  Sérmenntaðir kennarar kenna mörgum nemendum fáar greinar. Talið var að menntun þeirra nýttist betur í aldurskiptum skóla og leiddi væntanlega til bætts námsárangurs og meiri samfellu milli grunn- og framhaldsskóla.

Einnig bentu foreldra á  kosti við að hafa skólann heildstæðan.

 Þeir voru m.a.:  Nemendur umgangast önnur börn á öllum aldri, þurfa að læra að taka tillit til annarra með ólíkar þarfir og setja sig í spor annarra.  Nemandi man hvernig það var að vera einn af yngri nemendum og man hvernig hann leit til hinna eldri.

Talið var að með heildstæðum skóla byggðist upp skólasamfélag sem veitti öryggi og aðhald.  Nemendur hittu kennara  sem  leiddu þá fyrstu skrefin í skóla, sem þeir litu upp til og hefðu  ef til vill sterk tilfinningatengsl við.  Það veitir aðhald á unglingsárunum, þar sem nemandi hugsar sig ef til vill tvisvar um áður en hann hegðar sér á þann máta sem gæti valdið gamla uppáhaldskennaranum vonbrigðum.

Samfella í skólavistinni.  Nemandi er ennþá hluti af sama skólasamfélagi þó að hann fari upp á unglingastig.  Þess vegna er hugsanlegt að krafan um að merkja sig sem ungling sé ekki jafn sterk eins og ef nemandi væri kominn í yngsta bekk í unglingaskóla og þyrfti að verja tilverurétt sinn þar.

Unglingastigið á til góða það foreldrasamstarf sem hefur þróast í gegnum yngri bekkina og á betri möguleika á að veita það aðhald og samheldni  meðal foreldra sem þarf til að styðja við unglingana heldur en foreldrasamstarf sem stofnað er til á unglingastigi.

Foreldri sem taldi mikilvægt að skólinn væri heildstæður lagði áherslu á að betur þyrfti að huga að líðan og samskiptum barna og ungmenna.  Rætt var um mikilvægi þess að kenna unglingum að taka tillit til ungra barna og hjálpa þeim að gæta þess að barnið í þeim hverfi ekki of fljótt.  Rætt var um að andrúmsloft í skóla sem gerður var að heildstæðum skóla hefði gerbreyst  og orðið allt annað og skemmtilegra eftir að unglingum fækkaði og  yngri börn komu inn í skólann.

Einum fyrirlesaranum varð tíðrætt um mikilvægi þess að efla félagsleg tengsl  barna og ungmenna og slíkt þyrfti að gera mun markvissar en nú er gert.  Talað var um að innan skóla  væri nausynlegt að  hjálpa krökkum að vinna saman og kynnast hvert öðru. 

Loks var rætt um að ef uppeldi margra einstaklinga tækist vel væru líkur á að í sameiningu mynduðu þeir með sér gott samfélag.  Allir sem umgangast börn við góð skilyrði finna hvað þau geta gefið mikið af sér.  Sama gildir þegar  kostur gefst á að nýta reynslu þeirra sem eru eldri og reyndari.  Þannig gæfi samfélag barna og unmenna sem spannaði tíu ára aldursbreidd  fleirum kost á að læra af  þeim sem  yngri eru og eldri, en í samfélagi  sem spannaði aðeins  þriggja til fjögurra ára aldursbreidd.

Minni á netfangið skolamal@vestmannaeyjar.is sem er beintengt við stýrihópinn og einnig geta menn sent okkur á fræðslu-og menningarsviðinu bréf, sem við komum til réttra aðila.

Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi.


Jafnlaunavottun Learncove