Hávaði í umhverfi barna
Ráðstefna haldin 1. apríl í Kiwanishúsinu, Engjateig 17, Reykjavík.
Helgi Jenson forstöðumaður umhverfisstofnunar setti ráðstefnuna og talaði þar m.a. um að á árum áður var þögn talin dyggð, en staðreyndin sé hins vega sú að hávaði er áreiti. Fyrst þegar farið var að skoða hávaða t.d. á leikskólum var hann aðeins skoðaður út frá því starfsfólki sem þar starfaði en ekki út frá börnunum sem dvöldu þar.
Heyrn og heyrnarskaði Ingibjörg Hinriksdóttir yfirlæknir HTÍ
Geiningaraldur heyrnarskaða er mjög hár á Íslandi. Ástæða þess er sú að heyrn er ekki mæld hjá börnum í ungbarnaeftirliti, en heyrna og talmeinastöðin er að vinna í því að það verði tekið upp. Í dag eru 180 börn með heyrnarskerðingu á Íslandi á aldrinum 0-18 ára. Við heyrnarskaða minnkar hæfileikinn til að greina talmál. Foreldrar og aðrir sem vinna með börnum þurfa að átta sig á því að það er mjög alvarlegt ef börn kvarta yfir suði fyrir eyrum því það getur verið merki um heyrnarskaða. Mikilvægt er í því samfélagi sem við búum að kenna börnum að meta þögnina og finna kyrrðina.
Vistfræði kennarstofunnar Valdís Jónsdóttir heyrna og talmeinafræðingur.
Þegar skoðaðir voru hópur kennara og hópur annara starfsstétta kom í ljós að 20% kennara höfðu átt við veikinda að stríða sem rekja mátti til raddarinnar á meðan aðeins 4% þeirra sem voru í viðmiðunarhópnum. Valdís lagði áherslu á að huga þyrfti að gerð húsgagna til að draga sem mest úr hávaða. Fram kom að hávaðamörk eru 85 desibil, en meðalhávaði á leikskóla hefur mælst um 75 desibil.
Líðan skólabarna - ráðgjafabekkir Þórhildur Lindal fyrverandi umboðsmaður barna.
Þegar gerð var könnun á líðan skólabarna kom í ljós að 38% finnst skólastofan óþægileg m.t.t. hávaða. Einnig að mikil streita er hjá 10-12 ára börnum sem rekja má m.a. til hávaða og slæms lofts.
Hávaðamælingar í skólum. Sigurður Karlsson Vinnueftirliti ríkisins
Þótt hávaðamörk séu 85 desibil verða 40 af hverjum 100 fyrir heyrnarskaða við 85 desibil. Þó meiga hávaðatoppar ekki fara yfir 140 desibil hjá fullorðnum og 120 desibil hjá börnum áður en þeir fara að valda heyrnarskaða.
Þegar skólar o.fl. sem viðkemur börnum var skoðað kom í ljós að í helmingi tilfella var hávaði yfir mörkum á leikskólum (mælingar gerðar 1994-2001), í einu af 19 tilfellum í grunnskólum (mælingar gerðar 1981-1994) og í 12 af 20 tilfellum í íþóttahúsum (mælingar gerðar 1981-1997). Byggingarreglugerð setur mörk um ómtíma, en hann er þó oft yfir mörkum í leikskólum og enn meiri í grunnskólum en kemur þó verst út í íþróttahúsum. Þó hefur mælst talsverður munur þar sem gerðar hafa verið umbætur. Einnig hefur þeirri spurningu verið velt upp hvort mörkin séu raunhæf í reglugerð miðað við stærri íþróttahús. Ekkert eftirlit er með ómtíma.
Meðaltalshávaði hefur mælst 82,5 desibil í leikskólum, 78,5 í grunnskólum og 86,5 í íþróttahúsum. Þannig er börnum og starfsfólki á leikskólum og í íþróttahúsum hættara að verða við hávaðatoppum. Í mælinum kom í ljós að hávaðinn á leikskólum er mestu á skiptitímum og matartímum en þá fó hann yfir 100 desibil.
Heilsuefling og hávaðavarnir í leikskólum. Ágústa Guðmarsdóttir sjúkraþjálfari.
Mikið er búið að vinna með leikskóla hjá Reykjarvíkurborg en það hófst sem tilraunaverkefni árið 2000. Byrjað var á að taka út 16 leikskóla (stóra og litla, nýja og gamla). Þar kom nýjasti leikskólinn vest út hvað hávaða varðar. Í einum leikskólanum sem tekinn var út fór allta starfsfólk í heyrnarmælingu og kom í ljós að það starfsfólk sem unnið hafið í 15 ár eða lengur á leikskólanum mældist með skerðingu. Í þessari vinnu hjá Reykjavíkurborg hafa ýmsir punktar komið fram sem geta einfaldað málið, s.s.
- Nýta rými vel og jafna börnunum niður í rýmin.
- Hafa lokað á milli rýma.
- Ekki mikið af stóru sameiginlegum rýmum.
- Nota bastkörfur í stað plastdalla.
- Skipta börnunum á inni og útisvæði, ekki allir á sama stað samtímis.
- Nota tennisbolta og filt undir borð og stóla.
- Nota vaxdúka eða undirdúka á borð.
Fjölgun barna sem kom með samningum leikskólakennara kom ekki vel út hvað hávaða varðar.
Hávaðamælingar á tónleikum og veitingahúsum - hávaðamörk Einar Oddsson Heilbrigðisfulltrúi umhverfissviði Reykjavíkurborgar.
Reglugerð um hávaðavarnir byggir á reglum um hávaða innandyra. Samkvæmt því má hávaði á tónleikum og öðru ekki fara yfir 95 desibil og hávaðatoppar ekki yfir 115 desibil. Hinsvegar þarf að lækka mörkin í reglugerð fyrir atburði sem ætlaðir eru börnum niður í 90 desibil og hávaðatoppar ekki yfir 105 desibil.
Mikilvægi hönnunar Ólafur Hjálmarsson verkfræðingur Línuhönnun
Fram kom hjá honum að byggingarreglum um lágmarks hljóðeinangrun er ekki fylgt. Einnig hefur það komið fram í rannsóknum að börn hafa dregist aftur úr um eitt ár í lestri vegna mikils hávaða í umhverfinu. Hávaði veldur streitu sem svo getur valdið minnistapi.
Þessi ráðstefna var mjög skemmtileg og fræðandi. Þarna komu fram margir punktar sem ég hafði ekki hugsað út í áður og þarf að hafa vel í huga sérstaklega hvað varðar nýbyggingar.
Júlía Ólafsdóttir, leiksskólastjóri Sóla.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja.