18. júní 2004

Hátíðarræða Andrésar Sigmundssonar formanns bæjarráðs á Stakkagerðistúni

Góðir hátíðargestir! Í dag 17. júní 2004 eru 60 ár síðan við íslendingar fengum fullt frelsi og fullveldi. Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar forseta var gerður að þjóðhátíðardegi okkar.

Góðir hátíðargestir!

Í dag 17. júní 2004 eru 60 ár síðan við íslendingar fengum fullt frelsi og fullveldi. Fæðingardagur Jóns Sigurðssonar forseta var gerður að þjóðhátíðardegi okkar.

Öll þessi 60 ár hafa verið nær samfelldur uppgangstími í sögu þjóðarinnar. Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að frelsið og sjálfstæðið voru ekki auðfengin réttindi, því frá árinu 1262 og allar götur til ársins 1944 lutum við Íslendingar erlendu konungsvaldi. Íslendingar þurfa alla tíð að vera minnugir þess að sjálfstæði þjóðarinnar og réttur til að fara með stjórn eigin mála er ekki  sjálfsagður. Því þurfum við að minna okkur stöðugt á mikilvægi þess að halda hér uppu öflugu sjálfstæðu lýðræðisríki. Kosningarétturinn er grundvallaratriði og í sumar mun íslenska þjóðin ganga  a.m.k. tvisvar að kjörborðinu. Ég legg ríka áherslu á að hver og einn nýti sér þann rétt að kjósa. Kosningarétturinn og sjálfstæði þjóðarinnar eru hornsteinar þess þjóðfélags er við íslendingar lifum í. Engum blöðum er um það að fletta að íslenska þjóðfélagið er eitt það besta í heimi, en lengi getur gott batnað. Við eigum að nýta okkur þann rétt að taka þátt í mótun þjóðfélagsins með því að nýta kosningaréttinn. Við eigum að verja frelsið. Frelsið til að velja, frelsi til að segja já ellega nei.

Í landnámu segir frá því er þeir fósbræður Ingólfur Arnarson og Hjörleifur Hróðmarsson yfirgáfu Noreg. Sagt er að þeir hafi komið við á Írlandi og rænt þar þrælum. Er þeir komu til Íslands var Ingólfur sinn fyrsta vetur í Ingólfshöfða en Hjörleifur byggði sér tvo skála í Hjörleifshöfða. Þrælar þeir er voru með Hjörleifi um veturinn í höfðanum tóku sig saman og drápu hann. Sagan segir að foringi þrælana hafi heitið Dufþakur. Við getum spurt, hvers vegna þrælar Hjörleifs drápu hann? Ef til vill er ekki svo erfitt að svara því. Mjög líklegt er að þrælar Hjörleifa með Dufþak í broddi fylkingar hafi einfaldlega viljað vera frjálsir menn í nýju landi.

Um vorið kemur Ingólfur í Hjörleifshöfða og finnur þar Hjörleif fóstbróðir sinn dauðann. Nú eltir hann þrælana og sagan segir að hann hafi fundið þá á Þrælaeiði hér í Eyjum. Þrælaeiði mun vera það sem við köllum venjulega Eiði. Þrælarnir eru tíndir upp einn og einn og drepnir. Síðast segir sagan að Ingólfur Arnarson sem venjulega er kallaður fyrsti landnámsmaður Íslands hafi elt Dufþak foringja upp í Heimaklett. Hinn hugaði og frelsisþyrsti þræll Dufþakur tók þá ákvörðun að henda sér fyrir björg frekar en að falla fyrir sverði kúgara síns.  Dufþekja er í norðanverðum Heimakletti. Dufþakur er fyrsti maður á Íslandi sem sögur fara af sem berst fyrir frelsi sínu og frekar en að glata fengnu frelsi lætur hann lífið.

Þessi saga er marg slunginn og alls ekki auðvelt að lesa rétt úr henni. Það er nauðsynlegt að rannsaka hana betur og fleirri þætti er tengjast henni sem og upphafi byggðar í Eyjum. Við Vestmannaeyingar eigum að halda nafni Dufþaks mun meir á lofti en gert hefur verið.  

Að standa einn, segir í kvæði Einars Benediktssonar um menn líka Dufþaki.

"Að standa einn. Já, útlaginn er ríkur;

hans andi er himinfær og guði líkur".

En víkjum að vettvangi dagsins. Stjórnsýsla bæjarins hefur færst í jákvæða átt, ákvarðanataka ,upplýsingar til bæjarbúa og umræða eru opnari og í takt við kröfur nútímans. Samgöngumálin brenna á íbúum Vestmannaeyja. Á 60 ára afmæli lýðveldisins get ég ekki annað en spurt. Hvers eiga Vestmannaeyingar að gjalda í samgöngumálum?

Af málefnum bæjarins er helst til að taka að viðræður við félagið Fasteign eru nú á lokastigi. Ef allt gengur sem horfir þá mun atvinnulífið í bænum taka vel við sér. Gríðarlegar viðhaldsframkvæmdir á fasteignum eru framundan. Það birtir yfir í Eyjum. Stutt er í að ákvörðun og framkvæmdir hefjist við byggingu nýss leikskóla hér. Með haustinu munu framkvæmdir fara á fulla ferð við Menningarhús. Þær hugmyndir sem helst eru á lofti varðandi Menningarhús eru: Að Fiska-og náttúrugripasafn, Byggðarsafn og vegleg sérsýning um eldgosið 1973. verði í húsinu ásamt Upplýsingamiðstöð ferðamála og rými fyrir farand-og sérsýningar. Ég sé fyrir mér að hið nýja Menningarhús verði frábær viðbót við hið mikla menningarlíf okkar Eyjamanna og lyftistöng fyrir menningar-og safnastarfið sem og ferðaþjónustuna hér í Eyjum. Með þessum framkvæmdum verður hunduð miljóna inngjöf inn í bæjarfélagi. Það eru spennandi tímar framundan.  Í vísu eftir Einar Benediktsson segir:

"Dýrmæt eru lýðsins ljóð,

landsins von þau styrkja.

Alltaf græðir þessi þjóð

þegar skáldin yrkja".

Nýstofnuð Nýsköpunarstofa hefur farið vel af stað og væntum við mikils af því starfi sem þar er. Við höfum þegið höðinglegt boð Reykjavíkur um að vera gestir borgarinnar á menningarnótt 21, ágúst n.k. Hér er einstakt tækifæri til að kynna allt það er við Eyjamenn höfum upp á að bjóða. Það má segja að hlutirnir rúlli nú vel með okkur.

Góðir Vestmannaeyingar!

Verum stolt af því samfélagi sem hefur alið okkur og munum að við komumst öll fyrir hér á eyjunni, sama hvert áhugamálið er. Hvort við stundum golf, boltaíþróttir, sund, hestamennsku, sauðfjárbúskap, úteyjarlíf, gróðurrækt ellega eithvað annað.

Samfélagið okkar er jafngott og við hvert og eitt sem byggjum það.

Gleðilega hátíð.

 


Jafnlaunavottun Learncove