Guðjón Ólafsson frá Gíslholti bæjarlistamaður 2005.
Fjölmennt var við hátíðlega athöfn á Byggðasafni í morgun þegar formaður MTV, Elliði Vignisson tilkynnti hver hefði verið útnefndur bæjarlistamaður í ár. Forseti bæjarstjórnar Guðrún Erlingsdóttir afhenti listamanninum blóm frá Vestmannaeyjabæ og flutti stutta tölu. Á undan lék Litla-lúðrasveitin nokkur lög undir stjórn Hjálmars Guðnasonar.
Hér á eftir fer ræða formanns: Hagleiks- og listamaðurinn Guðjón Ólafsson er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur. Hann fæddist 1. nóvember 1935 í Gíslholti hér í bæ. Foreldrar hans voru Kristín Jónsdóttir húsmóðir og Ólafur Vigfússon sjómaður. Listamaðurinn verður sjötugur á árinu.
Hann hefur búið hér alla tíð. Stundaði hefðbundið nám hérna heima, tvítugur fer hann í Myndlista- og handíðaskólann í Reykjavík og einnig stundaði hann nám við handavinnudeild Kennaraskólans. Það eru liðin 50 ár síðan hann hóf nám í þessum skólum. Á tvö stórafmæli á árinu. Guðjón sótti einnig fjölda námskeiða í myndlist, m.a. hjá Barböru og Magnúsi Árnasyni, Þórði Ben og fleirum. Hann er og menntaður í trillusjómennsku og úteyjarlífi.
Lífskúnstnerinn "Gaui í Gíslholti" hefur í gegn um tíðina sett mark sitt á hvunndags- og menningarlíf Vestmannaeyinga.
Hann hefur ætíð verið reiðubúinn að leggja alþýðulistinni lið, nægir að nefna skreytingar í áraraðir á Týsþjóðhátíðunum, nú aðkomu hans að lundaböllum Vestmannaeyinga, skreytingar hans á uppákomum Akogesa. Hann gerði leikmynd í sýningu á "Gullna hliðinu" hjá Leikfélagi Vestmannaeyja og fleiri leikmyndir s.s. í "Meyjaskemmuna", sem Samkór Vestmannaeyja setti upp. Hann þykir einkar drátthagur. Teikningar hans af gömlum húsum, sögulegum atburðum og mannfólki hafa borið hróður hans víða og vakið athygli fyrir nákvæmni og nostur. Hann hefur m.a. myndskreytt bækur og blöð og teikningar hans af mönnum og málefnum eru Vestmannaeyingum löngu kunnar. Hann öðlaðist landsfrægð með teikningum sínum í bók Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar ?Vestmannaeyjar, byggð og eldgos". Hann hefur og átt teikningar í erlendum ritum og má þar nefna The New Yorker.
Guðjón Ólafsson, oftast nefndur "Gaui í Gíslholti" af samferðarmönnum, eða "Gaui hennar Hólmfríðar" hefur gripið í kennslu á stundum, leiðbeint byrjendum, verið Vestmannaeyjabæ til ráðgjafar um uppsetningar sýninga og fleira. Hann sá um uppsetningu á "Maður og öngull" á síðasta ári. Hann ásamt Eyjólfi Pálssyni og fleirum var einn aðalhvatamaður að "Degi lita og tóna", árlegri myndlista- og jasshátíð í Eyjum í minningu Guðna Hermannsen málara.
Guðjón Ólafsson hefur haldið nokkrar einkasýningar á myndlist sinni, tekið þátt í samsýningum og verið í forsvari fyrir öðrum. Vestmannaeyjbær á verk eftir hann.
Síðustu árin hefur áhugi hans jafnhliða maleríinu aukist á útskurði og kýs hann að vinna að list sinn í tré um þessar mundir.
Listamaðurinn hefur gefið góðfúslegt leyfi sitt að verða útnefndur Bæjarlistamaður Vestmannaeyja 2005, og kveðst vilja taka að sér að myndskreyta söguskilti þau sem MTV er með á áætlun að gera og hafa umsjón með þeirri vinnu. Svo og mun hann halda sýningu á útskurðarlist sinni í tilefni þessarar útnefningar, 70 ára afmælisins og 50 ára þrautagöngu í listinni.
Menningar-og tómstundaráð samþykkti einróma að útnefna Guðjón Ólafsson Bæjarlistamann árið 2005.
Andrés Sigurvinsson,framkvæmdastjóri fræðslu-og menningarsviðs Vestmannaeyja.