Grunnskólinn kom sveltur frá ríki til sveitarfélaga.
Ég leyfi mér að halda því fram að grunnskólinn hafi komið svolítið sveltur frá ríkinu til sveitarfélaganna. Niðurskurður hafði átt sér stað á árunum á undan og laun kennara voru í lægð.? Þetta segir Dr. Gerður G. Óskarsdóttir sem nýlega tók við starfi sviðsstjóra mennasviðs Reykjavíkurborgar í viðtali við Sveitarstjórnarmál en þriðja tölublað ársins er komið út.
Í tímaritinu segir Gerður G. Óskarsdóttir ennfremur: "Borgin byrjaði strax af miklum metnaði að byggja skólana enn frekar upp og bæta vinnuaðstæður þeirra og tók mjög alvarlega hlutverk sitt sem höfuðborg sem ber að vera í forystu. Farið var að móta skólastefnu borgarinnar í málefnum grunnskólans strax á fyrstu árunum og byggir hún á fundum og umræðum með fjölda aðila, bæði úr hópi skólafólks og foreldra auk stjórnmálamanna. Öll skref sem stigin voru á fyrstu árunum beindust að því að undirbúa breytingar á kennsluháttum.?
Í leiðara blaðsins fjallar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður sambandsins, um nýafstaðna ráðstefnu um nýmæli í stjórnun sveitarfélaga. Vilhjálmur fjallar um niðurstöður könnunar sem sambandið gerði á síðasta ári um hvaða nýmæli sveitarfélög hafa tileinkað sér á sviði stjórnsýslu, stjórnunar og reksturs og í upplýsingatækni og starfsmannamálum, en þær voru kynntar á ráðstefnunni.
Kastljósinu er beint að sameiningarmálum sveitarfélaga og ýtarleg kynning er á tillögum sameiningarnefndarinnar. Þá er rætt við Torfa Áskelsson sveitarstjórnarmann í Sveitarfélaginu Árborg en hann er mikill áhugamaður um uppbyggingu á Árborgarsvæðinu og nýtingu suðurstrandarinnar til eflingar ferðaþjónustu.