Gerum gott betra
Eins og Eyjamönnum er kunnugt hafa bæjarbúar og yfirvöld haft áhyggjur af þróun skóla- íþrótta - og félagsmála næstliðin ár og eitt af fyrstu yfirlýstu meginmarkmiðum núverandi meirihluta var að ráðist skyldi í könnun og almenna úttekt á þessum málaflokkum í heild sinni og reynt að átta sig á hvar skóinn kreppir að og í framhaldi að marka skýra stefnu til framtíðar. Frá upphafi hefur það verið alveg ljóst að þessi mál verða unnin í náinni samvinnu og sátt við foreldra, heimili, og skólastofnanir og hinn almenna bæjarbúa.
Undirbúningur þegar hafinn
Á vegum fræðslu og menningarsviðs er hafinn undirbúningur að vinnu áætlunargerðar um gagngera endurskoðun á skólastarfinu í Vestmannaeyjum. Samtímis verða íþrótta- æskulýðs- og menningarmál sett í sambærilega endurskoðun. Markmiðið er að samþætta og fá sem best flæði á milli þessara málaflokka og þeirra stofnanna sem undir þá heyra.
Vinnuhópur hefur tekið til starfa og nú hafa bæst í hann Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir stöðvarstjóri og fv. formaður skólamálaráðs og formaður Kennarafélagsins, Svava Bogadóttir. Hópurinn mun og njóta stuðnings og ráðleggingar starfsfólks félags- og fjölskyldusviðsins.
Tilgangurinn er að skiptast á skoðunum um verklag, safna saman hugmyndum og upplýsingum og koma með tillögur að aðferðafræði til stýrihóps sem fyrir margt löngu var valinn til að koma að þessum málum
Að höfðu samráði við skólastjórnendur leik- og grunnskólanna var ákveðið að koma á fót smærri hópum með fulltrúum frá skólum, foreldrum og nemendum eldri stiganna og öðrum. Í framhaldi af því verða deildarstjórar yngsta-, mið- og efsta stigs boðaðir á fund.
Einnig verður settur saman sérstakur hópur, sem kemur að málefnum þeirra er þarfnast sérkennslu eða annarra úrræða sem hefðbundið starf skólanna býður upp á. Sömuleiðis að hjálpa foreldrum til að nálgast þau úrræði sem þeim stendur til boða og þjálfa í að nýta sér þau. Inn í þann hóp koma sérkennarar, aðilar frá Búhamri, foreldrar, og aðilar frá félags- og fjölskyldudeild.
Þá verður sérstakur hópur stjórnenda leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskóla sem og annarra menntastofnana sem eru starfandi í Vestmannaeyjum og þar kæmi inn framhaldskólakennari og formaður stjórnar Hússins.
Grunnskólunum skipt í tvö aldursstig
Vinnuhópurinn hefur þegar hist nokkrum sinnum og hefur komið sér saman um að byrja á að skoða þær hugmyndir sem legið hafa í loftinu um alllangt skeið og leitast við að svara eftirfarandi í samvinnu við fyrrnefnda aðila;
HVORT ÆSKILEGT SÉ AÐ SKIPTA GRUNNSKÓLUNUM UPP Í TVÖ ALDURSSTIG, ÞANNIG AÐ Í ÖÐRUM ÞEIRRA VERÐI YNGRA STIGIÐ OG Í HINUM ELDRA STIGIÐ.
Í fyrstu atrennu hefur hópurinn ákveðið að einskorða sig við þrjá aðalþætti;
FAGLEGA ÞÁTTINN - FÉLAGSLEGA ÞÁTTINN - FJÁRHAGSLEGA ÞÁTTIN N
og spyrja innan hvers þáttar:
HVER ER KOSTURINN /STYRKLEIKI EF AF YRÐI ?
HVER ER GALLINN / VEIKLEIKINN EF AF YRÐI ?
HVER ERU TÆKIFÆRIN / SÓKNARFÆRIN EF AF YRÐI ?
Samtímis verður sjónum beint, með íþrótta-og æskulýðsmálin jafnframt í huga, að mikilvægi heilsdagsskóla fyrir börn frá 6 - 9 ára, þ.e. að börn eigi möguleika á að vera við íþrótta - og frístundaiðkanir eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur (14.00 -17.00), í sama máta hvort ekki sé tímabært að koma á laggirnar frístundaskóla fyrir börn og unglinga frá 10 - 16 ára ( 15.00 - 19.00).
Enn fremur hvernig viljum við þjónusta þau börn sem hafa sérþarfir, s.s. seinfær, bráðger, fötluð.
Hvernig viljum við svo standa að einstaklingsmiðuðu námi í framtíðinni? Eiga börn að vinna heimanám um helgar eða eiga frí frá vinnu sinni, hvernig getum við eflt samstarf foreldra, skóla og íþrótta-og æskulýðsmála og hvernig unnið markvisst að því að gera alla meðvitaða og samábyrga?
Markmið með slíkri endurskoðun hlýtur fyrst og fremst að vera að gera gott betra.
Kallar á samstarf allra
Við getum sjálfsagt öll verið sammála um að við viljum að nemendur og allir bæjarbúar fái sem besta þjónustu. Þannig hlýtur markmiðið með öllu skólastarfi að vera að hver nemandi nái sem bestum árangri miðað við þær forsendur sem honum eru gefnar. Ekki er síður mikilvægt að gott samstarf milli heimilis og skóla sé í hávegum haft. Stuðningur foreldra við börn sín er það sem að mati margra skólamanna skiptir höfuðmáli þegar um árangur nemenda og vellíðan þeirra í skólanum er að ræða. Það að hanna og reka góða skóla, kostar mikla fjármuni. Mikilvægt er að þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar sé vel varið. Sá þáttur þarf líka að vera hluti af endurskoðun skólastarfsins. Athuga þarf hlutfall barna hér miðað við annars staðar og hvort nægjanlegu fjármagni hafi verið varið til málaflokksins eða of miklu. Loks má ekki gleyma mikilvægum þætti sem skiptir alla máli. Það er félagslegi þátturinn. Hvernig byggjum við upp góðan félagsanda meðal ungmenna bæjarfélagsins? Hvernig viljum við bregðast við auknu brottfalli ungmenna úr íþróttum? Hvernig vinnum við gegn ofbeldi og vaxandi hættu á neyslu ólöglegra vímuefna, einelti og almennu agaleysi? Hvernig getum við stuðlað að því að ungmenni bæjarfélagsins geti sýnt sjálfstæði og staðið á eigin fótum gagnvart neikvæðum hópþrýstingi, og síðast en ekki síst hvernig getum við unnið að bættri líðan ungmennanna og fjölskyldna þeirra, hvernig getum við virkjað foreldrið og allt samfélagið betur en nú er?
Þessum vangaveltum og spurningum verðum við öll að velta fyrir okkur leitast við að svara með opnum huga, reyna af fullri einlægni og heiðarleika að fara ofan í saumana á stöðu þessara mála í dag og hvernig við viljum sjá þau í náinni framtíð.
Það er því nokkuð ljóst að slík endurskoðun sem framundan er kallar á samstarf allra og bæjarfélagsins í heild. Sérhagsmunir verða að víkja fyrir heildinni. Opin, heiðarleg og málefnaleg vinnubrögð verða að vera í fyrirrúmi. Við verðum ávallt og það vil ég undirstrika að láta fagleg- og félagsleg sjónarmið hafa forgang, en um leið að gera okkur grein fyrir að það er ekki svo lítið fjármagn sem fer í þessa málaflokka og það er ekki bara stjórnvalda að ákvarða hvernig þessum fjármunum er varið heldur allra bæjarbúa, þetta eru skattpeningarnir okkar.
Finnum styrkleika okkar og veikleika
Það er mikilvægt og það verður að nást breið samstaða um hvernig bæjarbúum sýnist skynsamlegast að ráðstafa þessum fjármunum sem eru til skiptanna, hvernig og hvar við viljum forgangsraða og hvaða stefnu í skólamálum við viljum marka og sjá í framkvæmd á komandi árum. Þessi mál eiga og verða að vera hafin yfir dægurþras og hnútukast.
Við skulum og hafa það í huga að oft er það fyrsta sem fólk spyr um, hyggi það á búferlaflutninga, hvaða gæðastimpil leik- grunn- og framhaldsskólar sveitarfélagsins hafa, hvernig skólaumhverfið sé og hverjir séu möguleikar til íþrótta- og frístundaiðkana. Ákvörðun um aðseturskipti vega þungt með tilliti til framansagðs, þótt atvinnutækifæri og almenn þjónusta skipti að sjálfsögðu mjög miklu máli. Þar skiptir og máli að hugsa til framtíðar þannig að þeir sem hleypa heimdraganum og halda til náms geti nýtt sér það er heim er komið.
Forðumst á þessum tímapunkti að fara út í samanburð við önnur sveitarfélög og nágrannabyggðir. Einblínum á veruleika dagsins í dag, drögum fram styrkleika okkar sem og veikleika, finnum út sóknarfærin sem ónýtt eru þarna sem annars staðar og höfum skólasögu okkar Eyjamanna að leiðarljósi.