G-festival - tónlistarhátíð í vinarbæ okkar Götu í Færeyjum
Hafdís Víglunds og bassaleikarinn Guðlaugur Rúnarson og hljómsveitin Hoffman fulltrúar okkar Vestmannaeyinga. Vestmannaeyjabær styrkir listamennina til fararinnar.
Það verður örugglega glatt á hjalla um helgina hjá frændum okkar og gestum þeirra á G-festivalinu, sem er tónlistarhátíð sem haldin er árlega í Götu í Færeyjum. Þarna koma fram ýmsar hljómsveitir, margar frá Norðurlöndunum, eins og Kashmir frá Danmörku, Lisa Ekhdal Svíþjóð, Eivör Pálsdóttir og Annika Hoydal frá Færeyjum, Gate frá Noregi og hljómsveitirnar Temple of Sound og DJ Hyper frá UK og Russ Taff frá Bandaríkjunum.
Gullrót félag áhugamanna um tónlist með Óðinn Hilmisson í fararbroddi hefur annast undirbúning fararinnar með dyggri aðstoð menningarmálafulltrúa bæjarins, Sigurgeirs Jónssonar.
Hafdís og Sigurjón eru fyrri daginn og hljómsveitin Hoffmann þann seinni, en eins og menn vita hafa þeir getið sér gott orð á fastalandinu undanfarið. Við óskum hópnum góðrar ferðar og gengis og vitum að þau verða góð landkynning.
Allar nánari upplýsingar um tónlistarhátíðin má finna á heimasíðu þeirra http://www.gfestival.com
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.