Fundur með forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins
Miðvikudaginn 6 júlí kom Kristín H. Sigurðardóttir forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins til fundar í Vestmannaeyjum að beiðni framkvæmdastjóra fræðslu - og menningarsviðs.
Tilgangur fundarins var að halda áfram að ræða efni sem kom fram á kynningarfundi frá Fornleifavernd ríkisins 23 júní sl. og fá frekari fræðslu og betri skilning á þeim lögum og reglum er varða minjavörslu og heyra til Fornleifaverndar ríkisins. Einnig að hitta framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar og skoða Slippinn með tilliti til fyrirhugaðra framkvæmda þar.
Frosti Gíslason framkvæmdastjóri umhverfis-og tæknisviðs, Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar hittu Kristínu ásamt starfsmönnum fræðslu- og menningarsviðs og skoðuðu slippinn og fóru yfir málin með tilliti til atvinnusögunnar og framtíðarsýnar. Að þeirri skoðun lokinni, kom Sigurður Friðbjarnarson verksmiðjustjóri og sýndi síðan hópnum húsnæði Lifrasamlagsins og rakti sögu þess.
Síðan fundaði Kristín með Andrési Sigurvinssyni, framkvæmdastjóra, Hlíf Gylfadóttir safnverði Byggðasafns og Jónu Björg Guðmundsdóttir, skjalaverði og var þar fjallað um málefni tengdum verndun sem þörf er á að sinna frekar í Vestmannaeyjum, s.s. friðun minja, hvernig best sé að haga málum varðandi vernd á gosminjum. Þar var og rætt um rústir Blátinds við Heimatorg, sjótankinn á Skansinum, rústirnar í Dauðadalnum, Herjólfsdal, uppgröftinn við Suðurveg og Pompeiverkefnið og fleira. Hópurin fór á þessa staði og skoðaði nánar og rifjaði upp hvað lægi þegar fyrir af rannsóknum.
Margar mjög góðar og þarfar ábendingar fengust frá forstöðumanni Fornleifaverndar á meðan á heimsókn hennar stóð og voru þessi mál sett í ákveðin farveg og í áframhaldandi vinnslu
Fræðslu- og menningarsvið þakkar Kristínu Huld Sigurðardóttir forstöðumanni kærlega komuna og er sannfært um að slíkar heimsóknir styrki tengsl og framtíðarsamskipti við Fornleifavernd ríkisins og opni augu starfsmanna enn frekar um nauðsyn á stöðugri árverkni varðandi varðveislu menningar- og sögulegra minja hér í Vestmannaeyjum.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.