18. febrúar 2004

Framsæknasti atvinnuleikhópur landsins "Vesturport" frumsýnir í Vestmannaeyjum.

Nýtt íslenskt leikrit, "Brim"eftir Jón Atla Jónasson. Stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki vélstjórans og fleiri aðstandendur "Rómeó og Júlíu" mættir á svæðið.

Nýtt íslenskt leikrit, "Brim"eftir Jón Atla Jónasson. Stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki vélstjórans og fleiri aðstandendur "Rómeó og Júlíu" mættir á svæðið.

Föstudaginn 20 febrúar nk. kl. 20:00 frumsýnir Vesturport leikritið Brim í Vélarsal Listaskólans.  Frumsýning þessi er að sönnu listviðburður fyrir Eyjamenn og reyndar landsbyggðina alla, það er nefnilega ekki á hverjum degi sem atvinnuleikhópur tekur sig upp og frumsýnir verk utan höfuðborgarsvæðisins.  En vegna samstarfs Vestmannaeyjabæjar, Leikfélags Vestmannaeyja og fleiri er þetta mögulegt og mikið fagnaðarefni.

Vesturport - Leikhús var stofnað árið 2001 og er félagsskapur gagfólks úr öllum listgreinum sem vinnur saman að ögrandi leiklist af öllu tagi.  Uppsetningar Vesturports eru orðnar 5 talsins:  Diskópakk, Titus, Herra Maður, Lykill um hálsin og fimleikhúsverkið Rómeó og Júlía sem vann til tveggja Grímuverðlauna og tekið var til sýninga af hinu virta Young Vic leikhúsi í London við mikla hylli gagnrýnenda og áhorfenda.

Leikritið gerist á jaðri landgrunns Íslands og fjallar um lífið um borð í fiskiskipi af smærri gerðinni.  Gleði, depurð og draumar áhafnarinnar renna saman við brælu hafsins og rótleysi tilverunnar í ljúfsárum mannlegum gleðileik.

Um uppsetninguna er þetta að segja:  Umgjörð verksins og leikmynd er unnin út frá grunnhugmyndinni um þá yfirþyrmandi nálægð sem persónur verksins búa við, hvor við aðra, þau andlegu og efnislegu þrengsli sem ríkja um borð í hinu ónefnda línuskipi sem veltur um lífsins ólgusjó.  Vettvangur leiksins er þröngt stálbúr, messi og káeta neðanþilja.  Gólfið hangir í vírum, ótengt jörðinni og riðar því til og frá við minnstu hreyfingu áhafnameðlima, allt er á ferð og flugi.

Um höfundinn:  Jón Atli er með mörg járn í eldinum.  Draugalestin var frumsýnd á dögunum í Borgarleikhúsinu, Rambó 7 var unnin fyrir leiksmiðju Þjóðleikhússins og verður frumsýnt í vetur.  Rambó 7 var nýlega valið eitt af tíu, nýjum evrópskum leikverkum sem flutt verða í öllum helstu höfuðborgum Evrópu á þessu ári.  Auk þessa hefur Jón Atli undanfarið misseri unnið að leikverki fyrir Royal Court leikhúsið í London sem getið hefur sér orð sem helsti suðupottur nýsköpunar leiklistar í Evrópu.  Hann hefur einnig sent frá sér smásagnasafnið Brotinn taktur.

Þeir sem standa að uppsetningunni eru: 

Leikendur: Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filipusdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Víkingur Kristjánsson.
Hljóð, leikmynd og ljós: Björn Kristjánsson, Börkur Jónsson, Hlynur Kristjánsson og Sigurjón Brink.

Leikstjórinn er hinn þrautreyndi leikhúsmaður Dr. Hafliði Arngrímsson, sem svo sannarlega hefur sett svip sinn á íslenskt leiklistarlíf næst liðin ár.  Hann var um árabila önnur aðaldriffjöður í leikhúsinu Frú Emelía ásamt Guðjóni Pedersen, og hefur nýlega látið af störfum sem aðalleiklistarráðunautur Borgarleikhússins og sótt á önnur og ný mið.

Aðstoðarleikstjóri:  Ólafur Darri Ólafsson

Fyrirhugaðar eru sýningar á föstudag frumsýning kl 20:00 og laugardag kl 20:00 og aukasýn? ( ef aðsókn og miðpantanir sýna fram á þörf verður fyrir aukasýn.).  Vegna lögunar leikmyndarinnar er takmarkaður gestafjöldi sem kemst inn á hverja sýningu c.a 80 manns. Eyjamenn eru kvattir til að láta þennan leiklistarviðburð ekki fram hjá sér fara og tryggja sér miða í tíma.  Það er ekki á hverjum degi sem að nýtt íslenskt verk er frumsýnt utan höfuðborgarsvæðisins. 

Leikfélag Vestmannaeyja tekur á móti miðapöntunum í síma 481-1940 og er miðaverði stillt í hóf sem þakklætisvott fyrir samstarfið við Vestmannaeyjabæ. 

Við hjá fræðslu og menningarsviði þökkum Vesturporti - Leikhúsi kærlega fyrir að gera okkur kleift að bjóða upp á það framsæknasta og besta sem er að gerast í dag í íslensku leikhúsi og Leikfélagi Vestmannaeyja að leggja fram krafta sína og aðstoð.

Andrés Sigurvinsson, framkvæmdastjóri  .


Jafnlaunavottun Learncove