Framkvæmdir HS Veitna á Kirkjuvegi í fullum gangi
HS Veitur standa nú í umfangsmiklum framkvæmdum á Kirkjuvegi í Vestmannaeyjum.
Þar er verið að endurnýja aðveituæð vatnsveitunnar, leggja nýja vatnslögn fyrir dreifikerfi vatnsveitu, auk þess sem háspennustrengur og ljósleiðari eru lagðir.
Verkið er hluti af nauðsynlegri uppbyggingu og endurnýjun innviða, sem mun styrkja afhendingaröryggi og bæta þjónustu til íbúa og fyrirtækja á svæðinu.
Til að flýta framkvæmdum og valda sem minnstri röskun á umferð, sérstaklega við leikskólann Sóla, var ákveðið hjá HS Veitum að vinna síðastliðinn laugardag. Með því var hægt að halda verkinu á áætlun og lágmarka áhrif á daglegt líf íbúa.
Ef allt gengur samkvæmt áætlun er stefnt að því að ljúka verkinu í þessari viku og undirbúa svæðið fyrir malbikun.




