Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2025
Í gær miðvikudaginn 5. nóvember
Það var sannkölluð hátíðarstund þegar Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum var heiðraður með Íslensku menntaverðlaununum 2025 í flokki iðn- og verkmenntunar. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 5. nóvember.
Að sögn Helgu Kristínar Kolbeins, skólameistara FÍV, er um mikla viðurkenningu að ræða fyrir markvissa vinnu við að efla iðn- og verknám innan skólans. Hún bendir á að áhersla hafi verið lögð á að skapa umhverfi þar sem nemendur fá raunveruleg tækifæri til að vaxa og þroskast í námi sem tengist beint samfélaginu og atvinnulífinu í Eyjum.
Í tilkynningu frá skólameistara kemur jafnframt fram að skólinn sé afar þakklátur fyrir þessa viðurkenningu og óskar öðrum verðlaunahöfum ársins innilega til hamingju.



