Frábærir tónleikar í Safnaðarheimilinu í Vestmannaeyjum
Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari og Richard Simms píanóleikari. Íslensku tónskáldin Jón Nordal og Karl O. Runólfsson í öndvegi.
Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, stóð menningarmálanefnd Vestmannaeyja fyrir tónleikum í Safnaðarheimilinu með Rut Ingólfsdóttur fiðluleikara og Richard Simms píanóleikara.
Á efnisskránni voru tvær sónötur fyrir fiðlu og píanó eftir Mozart, verk eftir pólska tónskáldið Wieniawski og sónötur fyrir fiðlu og píanó eftir íslensku tónskáldin Jón Nordal og Karl O. Runólfsson.
Rut er löngu viðurkennd sem einn besti fiðluleikari okkar og Richard Simms sýndi og sannaði að þar er á ferð feiknagóður píanóleikari. Þau Rut hafa náð sérstaklega vel saman eins og fram kom á þessum tónleikum enda var þeim vel fagnað af áheyrendum og léku tvö aukalög.
Rut upplýsti á tónleikunum að fyrirhuguð væri útgáfa á geisladiski þar sem þau Richard leika fjórar sónötur fyrir fiðlu og píanó eftir íslensk tónskáld, þar á meðal sónöturnar tvær sem þau tóku á tónleikunum, eftir Jón Nordal og Karl O. Runólfsson. Unnendur íslenskrar tónlistar hljóta að fagna þeirri útgáfu.
Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyja