Frábær sýning hjá Stille øy hópnum
Framhald verður í Færeyjum 2006. Norðmennirnir og félagarnir frá vinabæ okkar í Götu, Færeyjum héldu til síns heima í morgun.
Það var skemmtileg og óvanaleg stemming í Vélasal Listaskólans sem mætti áhorfendum við komuna á frumsýningu á verkefni hópsins, sem sýndi okkur afrakstur þeirra vinnu sem átt hafði sér stað undanfarna 10 daga. Reykmettað loft, fólk hangandi á víð og dreif í böndum og þokukenndar verur hér og hvar í salnum við undirleik tónlistar og ljósa, sem jók enn á áhrifin. Við gengum inn í heim sem við öll könnuðumst á einhvern undarlegan hátt við, þekktum og neyddumst jafnvel til að rifja upp þó okkur væri það þvert um geð. Veðrabrigði, tilfinningar og útþrá kom vel yfir í leik þátttakenda, sem auðsjáanlega höfðu unnið hörðum höndum undir styrkri stjórn leikstjóranna Ólafs Guðmundssonar og Katrine Strøm. Það hefur kostað blóð svita og tár að ná þessum gæðum á ekki lengri tíma en verkefnið stóð yfir. Dvöl hópsins í Bjarnarey og upplifun kom svo sannarlega í gegn um líkamstjáningu, tónlist, lýsingu og textameðferð. Galdur. Þessi tegund leiklistar einkennist oftar en ekki af einkennum dansins og mörkin milli veruleika og draums héngu í loftinu. Einkar áhugavert leikhús, og að sögn þeirra sem nutu skemmtilegt og framúrskarandi vel gert og menn fóru ríkari af svæðinu en þeir komu.
Að sögn þátttakendanna hefðu þau ekki viljað missa af þessari vinnu fyrir nokkurn pening. Færeysku þátttakendurnir og reyndar þau öll sögðu tvennt standa upp úr, ný vídd hefði opnast þeim varðandi framsetningu og vinnuaðferðir í leikhúsi og hitt að skyldleikinn við hina væri nú finnanlegur og hérna hefðu þau bundist böndum sem erfitt yrði að slíta. Vestmannaeyingarnir tóku undir þetta af heilum hug, sögðust einmitt hafa upplifað svipað þegar þau heimsóttu Norðmennina fyrir tveim árum.
Vestmannaeyjabær hélt þátttakendum kveðjuhóf með matarboði í Höllinni, þar sem á boðstólum var reyktur lundi með soðnum kartöflum og sméri ásamt rófustöppu. Á undan var borin fram humarsúpa. Á borðum var og harðfiskur frá Godthaab.
Gestirnir voru leystir út með gjöfum og sömuleiðis fengu gestgjafar gjafir á móti. Ánægjulegu vinnuferli, sem var annað í röðinni lokið.
Eina sem skyggði á var sorglega lítil þátttaka hins almenna bæjarbúa. En við sem sáum og upplifðum munum reyna að miðla af reynslu okkar og vonandi segja þessar myndir eitthvað.
Allir þeir sem styrktu og veittu aðstoð við verkefnið fá hinar bestu þakkir. Sérstaklega viljum við þakka fjölskyldum og vinnuveitendum aðstandenda verkefnisins og opinberum aðilum.
Vekjum athygli á heimsíðu verkefnisins www.silentisland.com
Fræðslu-og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar