Frá málþingi um unglingaskóla
Á málþingi sem ég sat fyrir nokkrum árum í Reykjavík var rætt um unglingaskóla, kosti og galla við slíkt fyrirkomulag. Nokkrir fyrirlesarar héldu erindi og voru þeir ýmist með eða móti hugmyndinni um skiptingu skóla. Að undanförnu hefur verið staðið fyrir umræðu hér í Eyjum um aldursskipta skóla, galla slíkrar skiptingar og kosti. Í þessari grein ætla ég að taka saman nokkur atriði sem fram komu á áðurnefndu málþingi og leggja inn í umræðuna með þeirri von að fleiri komi á eftir og leggi eitthvað til málanna.
Á fyrrnefndu málþingi kom meðal annars fram að ef litið er til annarra landa í öllum heimsálfum virðist meginreglan vera sú að börn og unglingar gangi fyrst í barnaskóla og síðan í unglinga- eða miðskóla. Skipting milli barna- og unglingastigs er með ýmsum hætti og getur verið mismunandi innan sama lands. Hún er þó gjarnan miðuð við 11 ára, 12 eða 13 ára aldur. Fram kom að það virðist til undantekninga að nemendur í öðrum löndum gangi í sama skólann (í sömu byggingu) í allt að 10 ár. Sagt er að slíka skóla sé helst að finna á Norðurlöndum og þá helst í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi. Ekki virðast liggja miklar rannsóknir á því hvort reynist nemendum betra og er skýringin talin sú að það sé helst vegna þess hve óalgengt er að barna- og unglingastig sé sameinað í einum skóla.
Dr. Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri ræddi þessi mál og færði fram rök bæði með því að hafa allt grunnskólastigið í einum skóla sem og að skipta í barnaskóla og unglingaskóla. Rökin voru þessi:
Rök með því að hafa allt grunnskólastigið í einum skóla:
q Meiri samfella í námi á milli miðstigs og unglingastigs
q Auðveldara að færa námsefni milli miðstigs og unglingastigs
q Sömu skólafélagar frá 6 ára til 15 ára og sami bekkjarhópur í lengri tíma
q Sömu reglur gilda lengur í lífi einstaklinganna
q Styttri vegalengd í skólann á unglingastigi
q Meiri þekking kennara á einstaklingum sem fara á unglingastig
q Tryggara umhverfi fyrir þá sem standa veikt, þeir þekkja sig
q Auðveldara að hafa sambærilega kennsluhætti á barna- og unglingastigi (ef samvinna er fyrir hendi)
q Sama stjórnun frá 1. - 10. bekkjar
q Meiri möguleikar á félagslegri blöndun
q Nemendur varðir gegn því að koma inn í ?harðan heim" unglingaskóla
q Nemendur sjá alla aldurshópa
q Félagslegum þörfum unglinga betur sinnt, ef ekki er áhersla á faggreinakennslu
Rök með því að skipta grunnskólastigi í barnaskóla (1. - 6. eða 7. bekk) og unglingaskóla (7. eða 8. - 10. bekk):
q Möguleikar á fjölbreyttari námstilboðum og valmöguleikum
q Meiri möguleikar á að ráða kennara sem er sérmenntaður í einstökum greinum á unglingastigi. Talið er að vænta megi betri árangurs í grein ef kennari hefur meiri menntun á sviðinu.
q Stór unglingaskóli getur veitt meiri þjónustu (s.s. val) fyrir minna fé en minni skólar geta
q Minni umskipti milli unglingaskóla og framhaldsskóla en á milli heilstæðs skóla og framhaldsskóla (nemendur hafa upplifað umskiptin áður)
q Skólastjórnendur geta betur sinnt stigunum sem þeir stýra ef skóli er fyrir eitt til tvö stig en ef hann spannar 3 stig (yngra- mið- elsta stig).
q Nemendur kynnast nýju umhverfi, nýjum kennurum og nýjum félögum við unglingsaldur
q Hærra meðaltal í bekk - minni kostnaður (flestir rekstrarliðir miðast við nemendafjölda)
q Bókasafn miðast annað hvort við barnastig eða unglingastig. Þar af leiðandi betra
q Losar um fordóma og jafnvel einelti gagnvart einstaklingum að skipta um skóla við unglingastigið (uppstokkun á bekkjum)
q Yngri nemendum finnst þeir síður undirokaðir af eldri nemendum
q Öryggiskennd ungra barna í litlum barnaskóla
Eins og má sjá af því sem hér hefur komið fram má ljóst vera að báðar skólagerðirnar sem hér eru til umræðu hafa margt til síns ágætis. Ekki er um að ræða rannsóknir eða haldbærar upplýsingar sem gefa til kynna hvaða kost eigi að velja. Hér skiptir að mínu mati mestu máli mikilvægi rakanna sem hvor skólagerð hefur með sér. Því er vert að hvetja bæjarbúa til að skoða rökin með opnum huga og spá í hvernig þeir vilja sjá skólana í í framtíðinni. Einnig hvet ég bæjarbúa eindregið til að notfæra sér netfang fræðsluskrifstofunnar skolamal@vestmannaeyjar.is til að koma rökstuddum skoðunum sínum um skólamál á framfæri við skólayfirvöld.
Erna Jóhannesdóttir fræðslufulltrúi