11. maí 2005

Frá landsfundi jafnréttisnefnda.

Landfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Akureyri 6.-7. maí sl. Í tengslum við landsfundinn var einnig haldið málþing á vegum Jafnréttistofu um launamun karla og kvenna og hvaða áhrif kjarasamningar og starfsmat hafa á þan

Landfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Akureyri 6.-7. maí sl. Í tengslum við landsfundinn var einnig haldið málþing á vegum Jafnréttistofu um launamun karla og kvenna og hvaða áhrif kjarasamningar og starfsmat hafa á þann launamun.

Rauður þráður landsfundarins var eins og svo oft áður launamunur karla og kvenna en ljóst er af ýmsum könnunum að enn er á bilinu 10-15% ?óútskýrður" munur á launum karla og kvenna. Er þá búið að gera ráð fyrir mismun vegna mismunandi vinnutíma, menntunar, fjölskylduábyrgðar sem konur axla enn í meira mæli en karlar og fleiri þátta. Sumir vilja reyndar halda fram að þessa þætti eigi ekki að útskýra, þeir eru í sjálfu sér hluti af launamismuninum.

Starfsmat, eins og það sem Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga hafa verið að gera við stóran hluta af starfsfólki sveitarfélaga var mikið til umfjöllunar á fundinum og var mat manna að þarna væri komið tæki til að draga úr launamun, ekki aðeins á milli kynjanna heldur einnig almennt. Að minnsta kosti er komið þarna tæki til að leggja mat á það hvaða störf teljast jafnverðmæt og sambærileg, en eins og segir í 14. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna:

?Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf".

Það dregur þó talsvert úr gildi starfsmatsins að ekki eru öll sveitarfélög og stéttarfélög orðin aðili að starfsmatinu og var innihald einnar ályktunar fundarins á þann hátt að hvetja alla þessa aðila til þátttöku í starfsmatinu.

Athyglisverð hugmynd var viðruð á fundinum, varðandi svokallaða Jafnréttisvog en það er mælitæki sem notað hefur verið m.a. á hinum Norðurlöndunum, til að leggja mat á stöðu jafnréttismála í ólíkum sveitarfélögum.

Þá var rætt um nauðsyn þess að konur taki virkari þátt í stjórnmálum. Nú er sameining sveitarfélaga víða á dagskrá og voru talsverðar áhyggjur af því að slíkar sameiningar yrðu enn frekar til að fækka konum í sveitarstjórnum.

Ályktanir landsfundarins voru eftirfarandi:

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn á Akureyri 6.-7. maí 2005 ályktar um launajafnrétti kynjanna:

Þó mikið hafi áunnist í að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi síðustu áratugi þá er enn langt í land á mörgum sviðum að jafnrétti hafi náðst. Eitt af því sem enn sker í augu er mikill munur á launum karla og kvenna. Landsfundurinn telur að til þess að hægt sé að leiðrétta þennan ójöfnuð þurfi virkar aðgerðir og samstillt átak atvinnurekenda, stéttarfélaga og stjórnvalda.

Eitt tæki til að leiðrétta launamun er samræmt starfsmat. Landsfundurinn skorar á sveitarfélög, sem atvinnurekendur, og stéttarfélög starfsmanna að fella öll störf undir starfsmat þannig að grunnröðun starfa verði samræmd.

Annað sem getur stuðlað að launajafnrétti er að afnema launaleynd, afnema ómálefnalegar aukagreiðslur, fjölga körlum í hefðbundnum kvennastörfum og konum í hefðbundnum karlastörfum og auka þátttöku karla í fjölskylduábyrgð. Landsfundurinn skorar á alla aðila vinnumarkaðarins að vinna að þessum málum.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn á Akureyri 6.-7. maí 2005 ályktar um nauðsyn þess að fjölga konum í sveitarstjórnum:

Nauðsynlegt er að tryggja að kynja- og jafnréttissjónarmið verði höfð til hliðsjónar þegar stillt er upp á framboðslista til sveitarstjórnarkosninga.

Landsfundurinn hvetur til þess að sveitarfélög og önnur stjórnvöld stuðli að aukinni þátttöku kvenna í sveitarstjórnum, t.d. með stjórnmálanámskeiðum fyrir konur í haust. Landsfundurinn bendir á að fyrir Alþingi liggur nú tillaga til þingsályktunar frá öllum þingflokkum um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, sbr. mál nr. 393, þskj. 491. Landsfundurinn skorar á Alþingi að samþykkja þessa tillögu fyrir þinglok.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga haldinn á Akureyri 6.-7. maí 2005 ályktar um jafnréttisvog:

Jafnréttisvog er mælitæki sem gerir samanburð á stöðu jafnréttismála milli sveitarfélaga mögulegan. Fundurinn hvetur félagsmálaráðherra til að beita sér fyrir því að íslensk jafnréttisvog geti orðið að veruleika fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Fyrir áhugasama skal bent á að erindi fundarins og málþingsins sem voru mörg hver mjög áhugaverð er hægt að nálgast á heimasíðu jafnréttisstofu á www.jafnretti.is.

Guðrún Jónsdóttir

félagsráðgjafi


Jafnlaunavottun Learncove