Félagsauður: Virðing, traust, samvinna
Félagsauður (Social Capital) á Íslandi: Forsenda framfara í nýju þjóðfélagsumhverfi? Menntun, félagsleg og efnahagsleg velferð, heilsa, stjórnmál og stjórnkerfi.
Málþing um félagsauð og mikilvægi hans í stefnumótun stjórnvalda, stofnana, samtaka og fyrirtækja, var haldið á vegum Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Borgarfræðaseturs á Grand-hótel fyrir nokkru og sat undirritaður það.
Markmið málþingsins þessa var að kynna hugtakið félagsauð (social capital) og íslenskar rannsóknir því tengdar í þeim tilgangi að koma hugtakinu "social capital" í auknum mæli inn í stefnumörkun og umræðu opinberra aðila, einkum sveitarfélaga, sjálfboðasamtaka og jafnvel fyrirtækja, svo og rannsóknir fræðimanna hérlendis.
Hugtakið félagsauður er víða um lönd tekið í vaxandi mæli inní stefnumörkun stjórnvalda og rannsóknir fræðimanna. Það er skilgreint sem verðmæti og áhrif þeirra félagstengsla sem einstaklingar mynda í fjölskyldum, vinahópum, vinnustöðum, félagasamtökum ofl. Verðmæti eða auður vegna þeirra margvíslegu jákvæðu áhrifa sem það getur haft á velsæld og hagsæld einstaklinga sem samfélaga.
Litið er á "social capital" sem auðlind samfélaga með sama hætti og efnislegan auð (physical- capital) og mannauð (human-capital).
Rannsóknir á áhrifum "social capital" bæði á einstaklinga og samfélög hefur fjölgað mjög og stjórnmálaleiðtogar hvort sem eru til hægri eða vinstri hafa tekið þetta atriði inní stefnuskrár sinna flokka, OECD hefur gefið út rit um mikilvægi félagsauðs fyrir stefnumörkun stjórnvalda og Alþjóðabankinn notar félagsauð sem einn mælikvarða við mat á þeim verkefnum er hann tekur þátt í.
Einn áhrifamesti fræðimaðurinn á þessu sviði er Robert Putnam prófessor v. Harvard og höfundur bókarinnar Bowling Alone, nánari upplýsingar um hann, rannsóknir og umræðu um "social capital" má sjá hér: http://www.ksg.harvard.edu/saguaro/
Tilefni málþingsins var m.a. ný samanburðarrannsókn á félagsauði (félagsvirkni og trausti milli manna og á lykilstofnanir) í 10 löndum, þ.á.m. Íslandi. Rannsóknin var styrkt af Evrópusambandinu og var yfirumsjón hennar í höndum dansks hagfræðiprófessors, Gert Tinggaard Svendsen, frá Viðskiptaháskólanum í Árósum, sem kynnti niðurstöðurnar á málþinginu. Markmiðið með rannsókninni var tvíþætt: í fyrsta lagi að koma á fót alþjóðlegum gagnabanka um félagsauð og í öðru lagi að leita leiða til þess að efla félagsauð, þ.e.a.s. hvernig stjórnvöld geta markvisst nýtt félagsauð sem tæki til aukinnar velsældar þegnanna.
Á málþinginu voru niðurstöður samanburðarrannsóknarinnar kynntar og íslenskir fræðimenn sem ýmist hafa notað hugtakið félagsauður beint eða tengd hugtök í sínum rannsóknum kynntu þær og bentu á leiðir til að efla félagsauð.
Sérstök áhersla var lögð á sveitarfélög (local communities) og hvernig þau geta nýtt hugtakið í stefnumótun sinni. Um það efni sérstaklega fjallað Mike Richardsson ráðgjafi og fyrrum borgarstjóri Christchurch á Nýja -Sjálandi.
Málþingið var öllu áhugafólki um samfélagsmál opið, en var einkum ætlað sveitarstjórnarmönnum, bæði kjörnum fulltrúum og embættismönnum, fagfólki á þeim sviðum sem um ræðir og fræðimönnum.
Fundarstjórn Dags Eggertssonar borgarfulltrúa var röggsöm og markviss og lauk málþinginu á tilsettum tíma.
Dagskráin hófst á fróðlegu og upplýsandi erindi Margrétar S. Björnsdóttir forstöðumanns stofnunar Stjórnsýslufræða sem jafnframt var upphafsmaður að þessu málþingi.
Hvað er félagsauður? Kenningar Robert D. Putnam og hvers vegna skiptir máli að setja félagsauð á dagskrá stjórnmála og vísinda? Næstur kom prófessor Þórólfur Þórlindsson Háskóla Íslands og fjallaði um Þrjár kenningar um félagsauð og gerði samanburð þeim á einkar skemmtilegan hátt. Félagsauður á Íslandi og í ellefu öðrum löndum: Gert Tinggaard Svendsen prófessor Viðskiptaháskólanum í Árósum birti því næst niðurstöður rannsóknar á samanburði milli landa á árinu 2003 og svaraði spurningum úr sal og var umræðan lífleg.
Þróun félagsauðs á Íslandi 1984-2000: einkenni breytinga og skýringar á mun milli landa: Stefán Ólafsson prófessor Háskóla Íslands og forstöðumaður Borgarfræðaseturs fjallaði um: Hvað segja rannsóknir ma. á Íslandi um áhrif og tilurð félagsauðs?
Þarna var gert kaffihlé.
Dagskráin hófst síðan á erindum undir yfirskriftinni;
Hvað segja rannsóknir m.a. á Íslandi um áhrif og tilurð félagsauðs?
Einkar áhugavert var erindi Ingu Dóru Sigfúsdóttur fræðimanns frá Rannsóknir og greining ehf. en hún beindi sjónum okkar að námsárangri nemenda og áhættu vegna áfengis og vímuefnanotkunar, því næst flutti Stella Blöndal erindi Sigrúnar Arinbjarnardóttur prófessors við Háskóla Íslands og fjallaði það um áhrif á samskiptahæfni og sjálfsálit, andlega líðan og áhættuhegðun,
Sigurður Guðmundsson landlæknir kom inn á heilsufar og andlega líðan. Steinunn Hrafnsdóttir lektor Háskóla Íslands ræddi áhrif á sjálfboðahreyfingar, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor Háskóla Íslands kom inn á hvernig áhrifa og tilurðar gætti á gæði opinberrar þjónustu og að lokum fjallaði Sigurður Snævarr Borgarhagfræðingur um áhrif og tilurð á árangur í efnahagsmálum
Eins og hér hefur fram komið var dagskráin yfirgripsmikil, víðfem og einkar áhugaverð og vakti upp margar spurningar bæði á staðnum og eftir að heim var komið. S.s. hvernig sinnum við þú og ég grenndarsamfélaginu? Hvernig eru tengsl skólans og heimilanna? Innan / utan? Er hugsanlega gjá á milli embættismanna, stjórnenda ,bæjarbúa, nemenda? Hvernig má þá brúa slíkt? Mikilvægi hópsins og heildarinnar kom ótvírætti fram í öllum þessum erindum og gildi félagsskapar og persónulegra samskipta. Eftir að hafa hlýtt á erindin og umræðurnar fannst manni ungmennafélagsandinn margfrægi sá eini rétti og réttari en maður hefur ef til vill viljað viðurkenna á stundum og sannarlega sveif hann yfir vötnunum þarna . Mann langaði helst að standa upp og hrópa ?Eyjunum allt"
Þetta vakti mig m.a. til umhugsunar um að líklega væru óvíða á landinu eins mörg og virk félög í byggðarlagi af okkar stærðargráðu og hérna heima og þarna væri hugsanlega ein skýringin á hinni frægu samstöðu okkar þegar okkur tekst berst upp að sameinast jákvætt um málefi og markmið og samnýta kraftana.
Dagur Eggertsson og Guðrún Ebba Ólafsdóttir borgarfulltrúar stýrðu pallborðsumræðum; Hvernig má efla félagsauð í sveitarfélögum?
Inngang flutti Mike Ricardson fyrrum borgarstjóri Christchurch á Nýja-Sjálandi. Þátttakendur pallborðsins voru: Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi, Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi, Sigríður Stefánsdóttir markaðs- og kynningarstjóri Akureyrabæjar, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúi og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Þórólfur Árnason borgarstjóri flutti síðan lokaorð og sleit málþinginu og bauð þessu fjölmenna og velsótta málþingi til mótttöku í Höfða að því loknu.
Andrés Sigurvinsson framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs