8. mars 2005

Drengjamenning.

Jón Pétursson sálfræðingur skrifar um ráðstefnu um Drengjamenningu í grunnskóla, áhrif - afleiðing - aðgerðir. Föstudaginn 24. febrúar sl. var haldin ráðstefna á Grand Hótel í Reykjavík um drengjamenningu í g

Jón Pétursson sálfræðingur skrifar um ráðstefnu um Drengjamenningu í grunnskóla, áhrif - afleiðing - aðgerðir.

Föstudaginn 24. febrúar sl. var haldin ráðstefna á Grand Hótel í Reykjavík um drengjamenningu í grunnskóla. Alls fóru sjö aðilar frá Vestmannaeyjabæ á ráðstefnuna sem var mjög vel sótt og komust færri að en vildu. Mörg áleitin atriði komu fram eins og einkunnir, aðbúnaður og líðan drengja, starfshugmyndir og staðalmyndir og reynslusögur drengja úr grunnskóla. Tveir erlendir fyrirlesarar fluttu erindi um karlmennsku og drengjamenningu í grunnskóla, áhrif, afleiðingar og aðgerðir í þágu drengja.

Þrennt stóð upp úr efni þessarar ráðstefnu að mínu mati. Í fyrsta lagi býr umræðan um stöðu drengja í grunnskólanum yfir of miklum staðalhugmyndum og staðalmyndum. Fullyrðingar eins og að grunnskólinn sé að verða of hlynntur stúlkunum á kostnað drengja eða að grunnskólinn mæti ekki þörfum drengja eru alls ekki réttar. Niðurstöður sýna að grunnskólinn mætir ekki þörfum sumra drengja (og stúlkna) og sumir drengir (og stúlkur) ráða illa við kröfur skólans.

Annað atriði sem stóð upp úr á ráðstefnunni og tengist þessu er að umræðan um stöðu drengja í grunnskóla þarf að byggja á staðreyndum eða rökum. Niðurstöður umfangsmikillar alþjóðlegrar könnunar (svonefnd PISA könnun framkvæmd 2000 og 2003) á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði, stærðfræði og þrautalausn sýnir að stúlkur á Íslandi eru meðal efstu þjóða í árangri í stærðfræði. Drengir á Íslandi voru í meðaltali í árangri.

Ef drengir á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni voru bornir saman kom fram uggvænleg niðurstaða. Drengir á höfuðborgarsvæðinu mældust nærri jafnhliða stúlkunum en drengirnir á landsbyggðinni mældust langt undir meðaltali. Niðurstaðan er skýr, drengir á landsbyggðinni eru lélegri í stærðfræði en á höfuðborgarsvæðinu. Hvaða áhrif og afleiðingar hefur það og til hvaða aðgerða þarf að grípa?

Þriðja og síðasta atriðið eru einmitt leiðirnar til að mæta drengjunum. Þar skiptir miklu máli að ráðast gegn viðteknum staðalhugmyndum sem virka nánast hamlandi á drengi í námi og hefur stundum verið nefnt gjald karlmennskunnar (sjá umfjöllun neðar). Annað sem skiptir máli er áhugi og þátttaka kennarans í áhugamálum drengja. Það skiptir ekki máli hvort kennarinn er karl eða kvenkyns (slík hugmynd byggir á staðalhugmyndum) heldur frekar hvort kennarinn geti ?séð" og virt persónu nemandans, geti vakið upp áhuga hans fyrir námi og sett kröfur sem honum finnast þess virði að fást við.

Þáttur foreldra er ekki síður mikilvægur (kannski sá mikilvægasti). Staðreyndir liggja fyrir um að þeir nemendur sem fá góðan stuðning og aðhald heima fyrir hvað varðar heimanámið, áhugamál, svefnvenjur, matarræði o.fl. ná bestum árangri í námi. Staðreyndir sýna einnig að drengir fá mun minna af þessum stuðningi og aðhaldi en stúlkur! Eru tengsl þarna á milli??

Drengir í viðjum karlmennskunnar kom nokkrum sinnum upp á ráðstefnunni. Í uppeldi drengja liggja fyrir viðteknar hugmyndir um karlmennsku sem sumar hverjar eru nánast skaðlegar og hamlandi. Þessar hugmyndir snúa m.a. að því að drengir/ karlar beita frekar ofbeldi (í öllum myndum þess orðs), launamunur kynja sé nánast náttúrulögmál, karlinn er fyrirvinna heimilisins og verður því að standa undir settum væntingum.

Drengir/karlar sýna hetjuskap og eiga að búa yfir snilligáfum (hæfni) þannig að árangur á að nást án þess að hafa mikið fyrir því (með náttúrugáfur í fótbolta, tölvutækni, námi). Það telst ekki karlmannlegt að hafa mikið fyrir náminu!

Drengir mega ekki vera ?stelpulegir", velja stelpur sem leiðtoga og hvað þá leika við stelpur. Hommafælni er ríkjandi, einelti er algengara meðal drengja og ?nýliðavígsla" (sbr. busavígsla) er talin vera eðlileg. Drengur sem alinn er upp undir þessum viðteknu staðalhugmyndum ber þungar byrðar sem hann stendur illa undir. ?Hertu þig upp drengur og hættu að vola. Þú skalt bara fara út og vaða í strákana og svara fyrir þig!"

Erindi þessarar ráðstefnu á fullt erindi til Vestmannaeyja, sérstaklega þegar niðurstöður síðustu ára hafa sýnt okkur að drengjum í Eyjum í samanburði við drengi annars staðar líður almennt illa í skólanum, semja verr við kennara, fá minni umhyggju og hlýju frá foreldrum sínum, sjá ekki sömu framtíð í námi og telja andlega heilsu sína verri.

Snúum okkur að drengjunum og þeirra drengjamenningu.

Jón Pétursson sálfræðingur

Fræðslu- og menningarsvið Vestmannaeyjabæjar.


Jafnlaunavottun Learncove