9. september 2022

Brynjar Ólafsson ráðinn framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar

Vestmannaeyjabær auglýsti á dögunum stöðu framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs lausa til umsóknar. Alls bárust sex umsóknir um starfið.

Við mat á umsóknum var stuðst við verklagsreglur um ráðningar starfsfólks hjá Vestmannaeyjabæ og m.a. leitað ráðgjafar frá Hagvangi. Við mat á umsóknum er aðallega horft til menntunar- og hæfniskrafna sem fram komu í auglýsingunni, starfsviðtöl við umsækjendur og umsagna.

Að loknu mati á umsóknunum ákvað Vestmannaeyjabær að ráða Brynjar Ólafsson, verkfræðing, til að gegna stöðunni. Brynjar lauk BS gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 og MS gráðu í byggingarverkfræði með sérhæfingu í samgönguverkfræði árið 2012, frá University of Florida í Bandaríkjunum.

Brynjar hefur starfað hjá Mannviti frá árinu 2013 sem ráðgjafi í vega- og umferðarverkfræði á sviði mannvirkja og umhverfis. Hann hefur unnið sem lykilhönnuður í verkefnum Mannvits og verið ábyrgur fyrir m.a. gatna- og stígahönnun og umferðarhermun. Áður starfaði Brynjar sem háseti hjá VSV.

Brynjar er 37 ára að aldri. Hann er kvæntur Ragnheiði Lind Geirsdóttur og saman eiga þau fjögur börn.

Vestmannaeyjabær býður Brynjar velkominn til starfa, en hann mun hefja störf á næstunni.