Breytingar á grunnskólastarfi
Hvers vegna breyting?
Áhugaverð umræða hefur farið fram um kosti og galla þess að aldursskipta grunnskólunum. Ég vil taka strax fram að ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun á málinu en finnst nauðsynlegt að öflug umræða fari fram um málið.
Hins vegar hefur mér dálítið fundið eins og verið væri að byrja á röngum enda, þ.e. gefa sér forsendur fyrirfram. Í mínum huga finnst mér að annað tveggja þurfi að liggja fyrir áður en ráðist er í umfangsmiklar breytingar, þ.e. annars vegar augljós ávinningur af breytingunum og/eða skilgreining á einhverju ástandi, vandamálum eða göllum við núverandi ástand sem kalli á breytingar.
Varðandi fyrra atriðið, þ.e. hvort það er augljós ávinningur af breytingunum, finnst mér það ekki hafa komið fram. Það er greinilegt að breytingin hefur í för með sér marga kosti en ennfremur marga ókosti og það er síðan stórt verkefni fram undan að vega og meta hvort kostir eru umfram galla. En þar sem að mínu mati er ekki fyrirfram augljós ávinningur þá veltir maður fyrir sér hvort síðari atriðið hafi átt við, þ.e. skilgreining á núverandi ástandi sem kalli á breytingar.
Nú veit ég ekki hvað er rætt innan skólageirans en ég hef ekki orðið vör við opinbera umræðu um að skipulagið í dag beinlínis kalli á þessar breytingar. Það var reyndar víðtæk umræða í vor um slakan árangur í samræmdum prófum en ég veit ekki til þess að það hafi orðið til þess að kallað sé á einmitt þessa uppstokkun á skólastarfi.
Þeir sem þekkja betur til leiðrétta mig vonandi en mér finnst dálítið eins og að verið sé að gefa sér fyrir fram lausn vandans áður en vandinn hefur verið skilgreindur.
Hvað sem því líður er ljóst að það þarf að leggja mikla faglega vinnu í að meta þessar hugmyndir og þær ábendingar sem fram hafa komið. Ég fagna því sérstaklega að boðið er upp á vettvang fyrir skoðanaskipti og að fólki gefist tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Það er að mínu mati mjög öflugur og fær stýrihópur sem stendur frammi fyrir því verkefni að skoða og sætta sjónarmið en það er þeim mjög mikilvægt að raddir sem flestra heyrist.
Tökum þátt í umræðunni
Grunnskólinn skiptir miklu máli hjá langflestum bæjarbúum. Langflest okkar eigum eða höfum átt börn eða barnabörn í grunnskóla, já eða erum grunnskólabörn sjálf! Að auki er það stór hluti af sameiginlegum sjóði okkar allra sem fer í þennan málaflokk. Veltum þessum málum fyrir okkur og komum okkar sjónarmiðum á framfæri, t.d. með skrifum í blöðin og netmiðlana eða með því að hafa samband við stýrihópinn (netfang: skolamal@vestmannaeyjar.is).
Hlustum á börnin
Eitt er ónefnt og það eru helstu neytendur þjónustunnar, þ.e. grunnskólabörnin. Ég veit ekki hvaða umræða fer fram í skólunum um þessar hugmyndir en við skulum ekki gera okkur í hugarlund að börnin fari varhluta af þessum umræðum. Og ég vil endilega að þau, eins og aðrir bæjarbúar, fái að segja sitt álit.
Því vil ég hvetja alla foreldra til að ræða þessi mál við börnin sín, fá fram hugmyndir þeirra um kosti og galla, leiðrétta ranghugmyndir sem hugsanlega kunna að vera uppi og fá frá þeim nýjar hugmyndir.
Reynum öll í sameiningu að fá fram bestu hugsanlegu niðurstöðu í málið, börnunum okkar og bæjarbúum öllum til heilla.
Guðrún Jónsdóttir félagsráðgjafi