Breyting á verðskrá og innheimtuaðferð í Vestmannaeyjum
Frá og með 22. apríl mun ný verðskrá taka gildi á móttökustöð Terra umhverfisþjónustu í Vestmannaeyjum auk þess mun félagið breyta innheimtuaðferð á næstu misserum.
Félaginu þykir leitt hvernig umræðan hefur þróast að undanförnu, enda endurspeglar hún ekki þann metnað og þau gildi sem Terra stendur fyrir í ábyrgri úrgangsstjórnun og sjálfbærni. Markmið okkar er að starfa í sátt við samfélagið og náttúruna og veita góða og sanngjarna þjónustu.
Frá og með 22. apríl nk. munu verða eftirfarandi breytingar:
- Móttaka málma verður endurgjaldslaus.
- Verð á gleri mun lækka í 6.698 kr./m³.
Jafnframt hefur í samstarfi við Vestmannaeyjabæ verið ákveðið að hefja vinnu við að breyta gjaldtöku á móttökustöðinni. Í stað gjaldtöku eftir rúmmetrum verður á næstu misserum komið upp vigt á móttökustöðinni og gjald tekið eftir kílóum í stað rúmmetra. Fram að því verður áfram rukkað eftir rúmmáli. Með þessu móti teljum við að hægt verði að ná meiri gagnsæi og auknu trausti í innheimtu á svæðinu. Þessi aðferð mun krefjast þess að einsleitnari farmar af úrgangi í ferð eru ákjósanlegir svo innheimt verði fyrir réttan efnisflokk í hverri ferð.
Við hjá Terra viljum jafnframt ítreka mikilvægi þess að starfsfólk okkar á móttökustöðinni fái að vinna störf sín í góðu og virðingarríku umhverfi. Þau sinna mikilvægu starfi í þágu samfélagsins og eiga skilið að mæta virðingu og kurteisi sem hefur því miður ekki verið raunin á undanförnum vikum í of mörgum tilfellum.
Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs við ykkur og vonum að þær breytingar sem hér eru kynntar stuðli að aukinni sátt og skilningi.