5. febrúar 2024

Breyting á Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035; Skilgreining á landnotkunarreit athafnasvæðis AT-2 breytist og verður iðnaðarsvæði

Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum þann 25. janúar 2024 að auglýsa skipulagslýsingu fyrir breytingar á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags sem gerir ráð fyrir að landnotkunarreit AT-2 verði breytt í iðnaðarsvæði. 

Svæðið AT-2 liggur á Eldfellshrauni en yfirborð landsins er þó raskað þar sem það var áður nýtt til hitaveitu frá hrauninu. Brýn þörf er á iðnaðarlóðum í Vestmannaeyjum þar sem engin lóð á iðnaðarsvæði er laus. Samhliða gerð deiliskipulags verður gerð breyting á aðalskipulagi sem felst í að

skilgreina reitinn sem iðnaðarsvæði.

Gert er ráð fyrir að lækka svæðið um allt að 6 m m.a. til þess að draga úr sýnileika þess frá nálægum útivistar og ferðamannasvæðum. Við gerð skipulagsáætlana verður sérstaklega hugað að varðveislu sérstæðra jarðmyndana og að takmarka sýnileika frá ferðamannasvæðum.

Efnisvinnsla bæjarins hefur verið staðsett í Viðlagafjöru og með uppbyggingu fiskeldis verður nauðsynlegt að finna henni nýjan stað. Er fyrirhugað iðnaðarsvæði á Eldfellshrauni talið besti kostur fyrir staðsetningu hennar og einnig er fyrirhugað að með tímanum muni steypustöðvar sem reknar eru í bænum einnig flytjast á iðnaðarsvæðið. Efni sem til fellur vegna landmótunar verður m.a. nýtt í uppbyggingu í Viðlagafjöru eða manir á nýja iðnaðarsvæðinu.

Skipulagsgögnin eru til sýnis í afgreiðslu Ráðhúss Vestmannaeyja, á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar og á skipulagsgátt sveitarfélagsins á tímabilinu 5. - 26. febrúar 2024.

Ábendingum og athugasemdum við tillöguna þarf að skila skriflega eigi síðar en 26. febrúar 2024 í afgreiðslu Ráðhúss, á netfangið dagny@vestmannaeyjar.is eða í gegnum skipulaggátt Skipulagsstofnunar.