24. janúar 2005

Börnin okkar stór og smá - smá ábending til foreldra.

Framundan er skemmtilegur tími. Nú fara í hönd utanlandsferðir, þorrablót, árshátíðir og ýmis skemmtilegheit. Vinsælt er hjá hjónum að taka sér smá tíma saman og skreppa upp á land eða jafnvel í styttri ferðir til útlanda.

Framundan er skemmtilegur tími. Nú fara í hönd utanlandsferðir, þorrablót, árshátíðir og ýmis skemmtilegheit. Vinsælt er hjá hjónum að taka sér smá tíma saman og skreppa upp á land eða jafnvel í styttri ferðir til útlanda.
Þá er það spurningin, hvað eigum við að gera við krakkana? Að sjálfsögðu þarf að fá gistingu og atlæti fyrir yngstu börnin hjá einhverjum góðum ættingja eða vini. En hvað með unglingana? Þau sem eru orðin svona 14, 15, 16 ára eða þaðan af eldri?  Þetta eru góðir krakkar, aldrei neitt vesen á þeim og þau kunna alveg að sjá um sig.
Hugsum okkur aðeins um.
Þetta er ekki spurning um hvort við treystum börnunum okkar, heldur hvort við treystum umhverfinu og þeim aðstæðum sem geta skapast.
Er 14 ára gamalt barn nógu gamalt til að gæta yngra systkinis? Já tvímælalaust. En er það nógu gamalt til að gæta yngra systkinis í nokkra daga? Er það nógu gamalt til að bregðast við óvæntum aðstæðum?  Er það nógu gamalt til að bregðast við ef eldri krakkar koma í óvænta heimsókn eitt kvöldið? Viljum við leggja þá ábyrgð á krakkana okkar að þurfa að bregðast við í slíkum aðstæðum? Krakkarnir okkar eru kannski alveg laus við allt ?vesen" en geta þau sagt nei við eldri unglinga, eða jafnvel fullorðið fólk sem sest upp hjá þeim?
Síðastliðin áratug hefur verið markvisst samstarf í gangi á milli félagsþjónustu og lögreglu með það að markmiði að koma krökkunum af götunum á kvöldin, fá þau og foreldra þeirra til að virða útivistartíma og minnka þar með hættuna á áfengisneyslu, fíkniefnanotkun og óábyrgri kynhegðun eða kynferðislegri misnotkun. Þetta hefur m.a. borið þann árangur að hér er vart að sjá krakka undir aldri eftir löglegan útivistartíma. En eru þau heima hjá sér?
Því miður virðist allt benda til að krakkarnir hafi farið inn af götunum, ekki heim, heldur hópist þau á ákveðna staði. Inn á heimili þar sem ekki eru ábyrgir forráðamenn að fylgjast með.  Eftirlitslaus unglingapartý eru sýnu verri en götuflakkið og rúnturinn hjá krökkunum. Lögreglan hefur litla möguleika á að grípa inn í fyrr en allt er farið úr böndunum og krakkarnir hrópa sjálf eftir hjálp.
Eftirlitslaus unglingapartý eru gróðrastía fyrir neyslu vímuefna, jafnvel hjá krökkum sem aldrei hafa prufað og hafa ekki hugsað sér að prufa, það er mikil hætta á ótímabærri og óábyrgri kynlífshegðun, jafnvel nauðgunum eða misnotkun.

Endilega höldum áfram að skreppa í hjónahelgar upp á land og til útlanda. En komum börnunum okkar fyrir í öruggum höndum á meðan.

Guðrún Jónsdóttir
félagsráðgjafi


Jafnlaunavottun Learncove