Bessahraun í deiliskipulag
Nokkrar umræður hafa verið um leyfi til byggingar íbúðarhúss í Bessahrauni. Tilgangur þessarar greinar er útskýra hvað er deiliskipulag, stuðst er við gögn frá Skipulagsstofnun.
Um deiliskipulag
Byggingaframkvæmdir eru bundnar í skipulagi, með því að ákveðin möguleg byggingaráform eru afmörkuð með deiliskipulagsuppdrætti, þ.e. hvað má gera á ákveðnu svæði. Deiliskipulagsuppdrættir eru samþykktir af bæjaryfirvöldum og öðrum lögboðnum skipulagsyfirvöldum. Þeir eru einnig kynntir almenningi með auglýsingu. Hlutverk deiliskipulags er að útfæra nánar stefnu og ákvæði aðalskipulags. Í því er m.a. kveðið á um lóðastærðir, byggingarreiti, byggingarmagn, húsagerðir, umferðarkerfi, útivistarsvæði og fjölda bílastæða.
Vinna hafin
Vinna við gerð deiliskipulagsins er þegar hafin og gengur vel. Áætlað er að þeirri vinnu muni ljúka síðar í þessum mánuði. Þá fer tillagan að deiliskipulaginu fyrir bæjarstjórn sem mun taka ákvörðun um hvort auglýsa megi skipulagstillöguna. Þá verður hún auglýst í Lögbirtingablaðinu og hún höfð til sýnis í 4 vikur. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, geta gert athugasemdir við tillöguna og hafa til þess 6 vikur frá því að tillagan fer í auglýsingu.
Skipulagsnefnd Vestmannaeyja fjallar um athugasemdirnar sem berast og gerir tillögu til bæjarstjórnar um afgreiðslu. Bæjarstjórn fjallar svo um tillöguna og tekur afstöðu til þeirra og hvort gera þurfi breytingar á henni. Ef bæjarstjórn gerir verulegar breytingar skal hún auglýst á ný.
Bæjarstjórn mun svo senda þeim sem gerðu athugasemdir umsögn sína, og auk þess kynna niðurstöðu sína opinberlega, m.a. á vef Vestmannaeyjabæjar. Bæjarstjórn sendir svo samþykkt deiliskipulag til Skipulagsstofnunar. Ef Skipulagsstofnun telur að einhverjir form- eða efnisgallar séu við deiliskipulagið, skal stofnunin koma athugasemdum sínum á framfæri við bæjarstjórn innan tveggja vikna frá því henni berst það. Ef stofnunin gerir ekki athugasemdir skal bæjarstjórn auglýsa samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda þegar frestur Skipulagsstofnunar er liðinn. Deiliskipulagið mun þá taka gildi þegar samþykkt þess hefur verið birt þar.
Áætlaður tími
Ef áætlun stenst mun deiliskipulagsferlinu ljúka í maí n.k.
Frosti Gíslason
Framkvæmdastjóri Umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar